Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir Seðlabankann ekki hafa of mikinn tíma til að sýna árangur í baráttunni við verðbólguna og því hafi verið ákveðið að stíga stór skref í dag, en stýrivextir bankans voru hækkaðir um eitt prósentustig og standa þeir nú í 7,5%.
Ásgeir segir í samtali við mbl.is að hann hafi enn trú á því að árangur náist í baráttunni fyrir haustið. Hann sagði síðast við mbl.is í febrúar að árangur þyrfti að nást fyrir haustið þegar ný samningalota á vinnumarkaðinum hefst. Hann ítrekar nú þessa skoðun sína.
„Það er ástæða af hverju við ákváðum að stíga mjög stórt skref núna. Við viljum ná árangri. Við teljum að við höfum ekki svo mikinn tíma í ljósi þess að það er mikilvægt að sýna árangur inn í næstu kjaraviðræður. Það tekur tíma fyrir peningastefnuna að virka, en hún virkar. Þrátt fyrir allt erum við að sjá að vaxtahækkanir okkar eru að hafa áhrif og eru að fara í gegnum allt kerfið, en það tekur tíma,“ segir Ásgeir.
Á fundi peningastefnunefndar í dag vegna vaxtaákvörðunar kom fram að nefndin væri að reyna að fá atvinnulífið til að hægja á sér með fjárfestingar og þenslu. Þá beindi hann jafnframt sjónum sínum að framkvæmdavaldinu og sagði alla hjálp vel þegna úr ríkisfjármálunum.
„Við fögnum öllu því sem dregur úr eftirspurn á þessum tímapunkti,“ segir Ásgeir inntur eftir því hvaða útspil hann vilji sjá frá ríkinu. Vísar hann í nýja fjármálaáætlun sem er í smíðum. „Ég tel að hún muni skipta miklu máli.“ Spurður hvort Seðlabankinn hafi verið í einhverju sambandi við framkvæmdavaldið varðandi þá smíði segir hann svo ekki vera. Bendir Ásgeir á að þegar peningastefnunefnd og fjármálastöðugleikanefnd séu að birta sínar ákvarðanir og rit þá sé Seðlabankinn í einskonar „sóttkví“ á meðan.
Spurður nánar út í hvaða leiðir ríkisvaldið hafi til að slá á eftirspurnina og hvort slíkt sé aðeins í gegnum aðhald í rekstri ríkisins, eða hvort hann telji einhverjar skattaleiðir færar, segir Ásgeir að það sé ekki Seðlabankans að gefa skilaboð um slíkt. Bankinn hafi það hlutverk að greina og fylgjast með peningastefnu og nota þau tæki sem bankinn hafi. „Við getum ekki gefið út einhverja ráðgjöf sí svona,“ segir Ásgeir og bendir á að ríkisfjármálin séu í eðli sínu pólitísk og ákveðin af kjörnum fulltrúum sem svo þurfi að svara fyrir ákvarðanir sínar í kosningum.
Ljóst er að áform eru uppi um miklar fjárfestingar fyrirtækja hér á landi á komandi misserum. Bæði kom það fram í máli varaseðlabankastjóra peningastefnu á kynningarfundinum í morgun, auk þess sem tölur opinberra fyrirtækja fyrir árið sýna að árið í ár verður að öllum líkindum stórt framkvæmdaár. Raungerast þau áform er það í andstöðu við tilraunir Seðlabankans til að reyna að slá á þensluna og hitann í hagkerfinu.
Spurður hvort hann hafi áhyggjur af þessum miklu áformum og þá sérstaklega hvort að opinber fyrirtæki eigi að slaka á í fjárfestingum segir Ásgeir að yfir heildina sé von bankans að vaxtahækkunin leiði til forgangsröðunar. Ekki sé óeðlilegt að mörg fyrirtæki séu nú að fjárfesta til að reyna að auka framleiðslugetu eftir því að hafa verið í fullri framleiðslugetu eftir faraldurinn.
Bendir Ásgeir að því að með hærri vöxum verði dýrara að skulda og því sé verið að tryggja forgangsröðun í fjárfestingum fyrirtækja þar sem velja þurfi arðbærustu fjárfestingarnar. Hann tekur þó fram að það sé ekki hans né bankans að meta hvaða fjárfestingar séu góðar eða slæmar í sjálfu sér, en að yfir heildina ætti þetta að draga úr fjárfestingu.
Ásgeir segir að allt bendi til þess að erfitt verði fyrir efnahagslífið að taka á móti allri þeirri aukningu í framleiðslu sem er í kortunum. Þannig sé þegar vinnumarkaðurinn þaninn og skortur sé á fólki.
Við vaxtahækkanir beinast sjónir almennings oft að íbúðalánum, enda sjá margir bein áhrif vaxtahækkana best þar í hækkandi greiðslubyrði. Ofan á það bætist að fastvaxtatímabil fjölmargra sem eru með óverðtryggð lán er senn á enda. Ásgeir ítrekaði nú orð sín frá í síðustu viku um mikilvægi þess að bankar mæti þeim viðskiptavinum sínum sem geti lent í vandræðum vegna hækkandi vaxta. Segir hann að bankarnir þurfi að horfa til þess að styðja við viðskiptavini sína sem þeir ætli líklegast að hafa í viðskiptum næstu áratugi. Það þurfi að gera yfir skammvinn tímabil sem hann vonar að verðbólgutímabilið verði.
Ásgeir segir Seðlabankann reyndar telja að húsnæðislán almennings og greiðslubyrði almennings standi nokkuð sterkum grunni. Það komi til vegna þess að sett voru ströng skilyrði fyrir lántöku, bæði varðandi greiðslubyrði sem hlutfall af ráðstöfunartekjum sem og með eiginfjárhlutfall. Þá nefnir hann að þeir sem hafi tekið óverðtryggt húsnæðislán hafi að undanförnu verið með neikvæða raunvexti á sínum lánum með tilheyrandi eignarmyndun og auk þess notið hækkunar á fasteignaverði. Ásgeir segir að vonandi fari vaxtahækkunin að leiða til þess að verðbólgan fari niður og að jákvæðir raunvextir fari að birtast. „Það er ljóst að það er mjög erfitt fyrir Seðlabankann að láta svona háa verðbólgu ganga lengi.“