Kristófer Már Maronsson hagfræðingur býður sig fram í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins.
Kristófer hefur m.a. verið formaður og framkvæmdastjóri Stúdentaráðs, stjórnarmaður hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, rekstrar- og fjármálastjóri hjá aha.is og starfar nú sem sérfræðingur hjá Byggðastofnun ásamt því að sitja í stjórn Fjallalambs, að því er fram kemur í tilkynningu.
Almenni lífeyrissjóðurinn er öllum opinn en hann er jafnframt starfsgreinasjóður arkitekta, leiðsögumanna, lækna, hljómlistarmanna og tæknifræðinga. Atkvæðabærir sjóðfélagar eru tæplega 57 þúsund talsins en allir sem hafa einhvern tímann greitt í sjóðinn hafa atkvæðisrétt.
Rafræn atkvæðagreiðsla í stjórn lífeyrissjóðsins hófst í dag og lýkur 29. mars.
Í tilkynningunni segir að Kristófer ætli sér að forgangsraða í þágu þriggja mála á vettvangi Almenna lífeyrissjóðsins. Þau eru að tryggja hámarksávöxtun á sparnaði sjóðfélaga, aukið valfrelsi við ávöxtun séreignarsparnaðar og að efla áhuga fólks á lífeyrismálum.