Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja, hyggst kæra niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í síðustu viku til Landsréttar. Héraðsdómur hafnaði þar kröfu hennar, þess efnis að rannsókn héraðssaksóknara á hendur henni yrði úrskurðuð ólögmæt og felld niður.
Þetta staðfestir Halldór Brynjar Halldórsson, lögmaður Örnu, í samtali við ViðskiptaMoggann.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að bræðurnir Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, sem stýrir fyrrnefndri rannsókn, og Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður sem skrifað hefur mikið um málið, hefðu ekki persónulegra hagsmuna að gæta.
Sama dag og niðurstaðan var birt var greint frá því að Ingi Freyr hefði stöðu sakbornings í rannsókn á máli þar sem Arna kemur við sögu.
„Hann liggur undir grun um refsivert afbrot í garð skjólstæðings míns. Persónulegri verða hagsmunirnir vart,“ segir Halldór Brynjar.