Lars Karlsson, stjórnandi í ráðgjafarþjónustu um alþjóðaviðskipti og tollamálefni hjá Maersk-skipafélaginu, sagði í erindi sem hann hélt í Húsi atvinnulífsins á dögunum að sextíu stærstu hagkerfi í heimi hefðu samtals sett á sjö þúsund viðskiptahindranir síðan í fjármálahruninu árið 2008.
Karlsson fór í erindi sínu, sem bar yfirskriftina „Öryggi í alþjóðlegum vöruflutningum á víðsjárverðum tímum“ yfir miklar breytingar sem eru að verða í alþjóðaviðskiptum og flutningum.
Hann sagði veruleikann í dag þann að fólk pantar eitthvað í rólegheitum í snjallsíma sínum en um leið og kaupin eru samþykkt fer af stað mikið ferli í aðfangakeðjum heimsins. „Varan gæti komið frá Englandi eða Úrúgvæ, þú veist það ekki. Og stundum færðu svar um að varan berist þér eftir átta mánuði eða þrjá daga,“ sagði Karlsson.
Meðal þess sem hann kynnti á fundinum var eins konar vegabréf fyrir inn- og útflytjendur til að liðka fyrir viðskiptum milli landa; AEO-viðurkenninguna, þar sem fyrirtæki geta gerst viðurkenndir rekstraraðilar. „Þetta er tiltölulega nýtt á Íslandi og aðeins 1-2 fyrirtæki eru komin með AEO,“ sagði Karlsson. „Fyrirtæki geta með fyrirbyggjandi aðgerðum verið betur í stakk búin að fást við truflanir og brugðist hraðar við þegar ófyrirséðir atburðir eiga sér stað.“
Lestu ítarlegri umjöllun í ViðskiptaMogganum í dag.