Stefán E. Stefánsson
Ævintýralegur vöxtur hugverkaiðnaðarins hér á landi er slíkur að Arion banki treysti sér ekki til þess að setja tölurnar því tengdar inn í hagvaxtarspá sína. Iðnaðurinn gæti margfaldast að umfangi.
Þetta kom fram í máli Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion, á Iðnþingi fyrir skemmstu. Á þinginu var fjallað um vaxtarmöguleika hugverkaiðnaðarins hér á landi en fyrirætlanir stærstu fyrirtækja á því sviði benda til þess að hann muni margfaldast að umfangi á komandi árum.
Sýna þær að hugverkaiðnaðurinn, sem skilaði 239 milljörðum króna í útflutningstekjur í fyrra muni geta skilað 700 milljörðum á árinu 2027.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Árni Sigurjónsson formaður samtakanna eru gestir Dagmála og ræða þessa stöðu. Sigurður kallar m.a. eftir því að þeir sem leggi mat á hagvaxtarhorfur setji upp sviðsmyndir þar sem tillit er tekið til ört vaxandi greina eins og hugverkaiðnaðarins.
Þá bendir hann á og vísar jafnframt til orða Benedikts á þinginu að fjármögnunarkjör íslensks hagkerfis séu verri en efni standa til, einkum vegna þeirrar hugmyndar erlendra fjárfesta að hér sé við lýði einhæft atvinnulíf. Það hafi hins vegar breyst mikið á undanförnum árum, ekki síst vegna hugverkaiðnaðarins.
Innlegg Benedikts á Iðnþingi má sjá hér:
mbl.is