Erna Einarsdóttir hefur tekið við nýju starfi framkvæmdastjóra innkaupa og hönnunar hjá Útilífi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Erna er menntaður hönnuður með meistaragráðu í fatahönnun frá Central Saint Martins. Hún starfaði áður sem hönnuður og innkaupastjóri hjá Geysi. Síðastliðið ár hefur Erna aðstoðað Útilíf við hönnun og útlit nýrrar útivistarverslunar.
„Eftir að hafa tekið þátt í uppbyggingu á nýrri stefnu Útilífs síðastliðið ár sé ég mörg tækifæri til framtíðar í vörumerkjaframboði Útilífs,“ er haft eftir Ernu í tilkynningunni.
„Það verður spennandi áskorun að taka áframhaldandi þátt í metnaðarfullri uppbyggingu Útilífs, bæði í mörkun vörumerkisins sem og innkaupum, en það er auðvitað það sem ég brenn fyrir og hef þekkingu og áhuga á.
Ég hlakka til að sækja fremstu útivistar- og íþróttamerkin sem eru í boði, styðja við þau sterku vörumerki sem eru nú þegar hjá Útilífi og staðsetja Útilíf sem eina af fremstu verslunum landsins.“