Hagnaður fyrirtækjasamstæðu Lyfju var samtals 446 milljónir á síðasta ári, en samtals námu tekjur samstæðunnar 15,2 milljörðum króna og jukust um 9% milli ára.
Undir hatt Lyfju heyra samnefndar lyfjaverslanir, Heilsuhúsið og heildsalan Heilsa, en heildsalan fékk á síðasta ári tilskilin leyfi til innflutnings lyfja og tók á móti fyrstu lyfjasendingu sinni. Þá stefnir félagið að því að opna verslun og þjónustumiðstöð á sviði heyrnarvara, heyrnarmælinga og heyrnartækja á þessu ári.
Í tilkynningu frá Lyfju segir að rekstrarhagnaður félagsins fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir hafi numið 1,3 milljörðum og var framlegð af vörusölu 32%, sem er óbreytt hlutfall frá fyrra ári.
Samtals störfuðu 384 hjá fyrirtækinu í 242 stöðugildum, en þriðjungur þeirra eru sérhæfðir heilbrigðisstarfsmenn og 84% þeirra konur.