Lesendur mbl.is völdu auglýsinguna „Takk Egill“, sem framleidd var af Skot Productions fyrir Pipar, bestu sjónvarpsauglýsingu ársins 2022.
Í tilefni af ÍMARK-deginum, sem haldinn var í gær, gafst lesendum mbl.is kostur á að kjósa sína uppáhalds sjónvarpsauglýsingu úr hópi 37 auglýsinga sem vöktu athygli á síðasta ári. Þar bar auglýsingin Takk Egill sigur úr býtum en á fjórða þúsund manns greiddu atkvæði á mbl.is.
Auglýsingin er sem fyrr segir framleidd af Skot Productions fyrir auglýsingastofuna Pipar, sem vann að verkefninu fyrir Toyota á Íslandi.
Í henni kveður Toyota Egil Ólafsson listamann, sem verið hafði rödd Toyota í um 30 ár, með virktum en við keflinu tók Ólafur Darri Ólafsson leikari. Auglýsingin vann jafnframt verðlaun í gær í flokki „kvikmyndaðar auglýsingar“ þegar Lúðurinn var afhentur.
Hér er hægt að horfa á umrædda auglýsingu:
Og hér er hægt að sjá myndband um gerð auglýsingarinnar: