Fyrstu skógar­kol­efnis­einingarnar seldar

Skógur í Heiðmörk.
Skógur í Heiðmörk. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrstu skógarkolefniseiningarnar í tengslum við nýlegt verkefni Skógræktarinnar hafa verið seldar hér á landi. Það var fyrirtækið Yggdrasill Carbon sem hafði milligöngu um söluna, að lokinni vottun, fyrir landeiganda í Fljótsdal í byrjun þessa árs. Kaupendur voru Íslandsbanki og Deloitte.

„Þetta eru frábær tíðindi og við erum mjög ánægð að Íslandsbanki og Deloitte sýni verkefninu okkar það traust að taka þátt í því frá upphafi. Við væntum þess að fleiri komi með í vegferðina fljótlega,“ segir Björgvin Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri Yggdrasils Carbon.

Viðurkennt vottunarferli 

Verkefni Skógræktarinnar nefnist Skógarkolefni og snýst um að koma á fót viðurkenndu ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt.

Ein skógarkolefniseining samsvarar einu tonni af koltvísýringi í andrúmsloftinu sem er bundið í skógi. Til að jafna losun á einu tonni af koltvísýringi þarf því að telja fram eina skógarkolefniseiningu. Til að slíkar einingar geti orðið til þarf að rækta nýjan skóg, fá kolefnisbindinguna vottaða og skráða í Loftslagsskrá Íslands, að því er kemur fram á vefsíðu verkefnisins.

Björgvin Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri Yggdrasils Carbon.
Björgvin Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri Yggdrasils Carbon. Ljósmynd/Unnar Erlingsson

Nota ekki fyrr en skógurinn hefur vaxið

Yggdrasill Carbon er í samskiptum við landeigendur úti um allt land vegna samstarfsverkefnis þeirra og Skógræktarinnar. Svæðið sem um ræðir í Fljótsdal var gróðursett síðasta sumar. Kaupendurnir, Íslandsbanki og Deloitte, nota kolefniseiningarnar sem þeir keyptu í sínu græna bókhaldi en geta ekki notað þær á móti losun gróðurhúsalofttegunda í bókhaldi fyrr en skógurinn er búinn að vaxa meira. Samt sem áður geta kaupendurnir selt kolefniseiningarnar ef þeim sýnist svo, á meðan þeir hafa ekki notað þær.

Spurður segir Björgvin Stefán að fyrirtækin geti byrjað að nota einingarnar í sínu bókhaldi þegar skógurinn er byrjaður að raunbinda kolefni. Fyrstu einingarnar verða gefnar út á fimmta ári en þær ná hámarksbindingu um miðbik samningstímans eða frá 25. til 35. árs.

Hann tekur fram að varan sem Yggdrasill Carbon selur, vottaðar einingar í bið, eru ekki notaðar til að kolefnisjafna út rekstur fyrirtækja á því ári sem þær eru keyptar heldur á þeim árum sem einingarnar verða raunverulega til.

Verkefni til næstu 50 ára

„Núna er verið að tryggja sig inn í framtíðina með því að kaupa einingar í bið. Fyrirtæki eru að horfa mun lengra en næstu 12 mánuði. Þessi verkefni hjá okkur eru til 50 ára,“ segir Björgvin og bætir við mörg fleiri verkefni séu í bígerð í sumar. Í raun hafi fjöldi þeirra tvöfaldast frá síðasta ári.

Fyrstu skógarkolefniseiningarnar í tengslum við verkefnið hafa verið seldar hérlendis.
Fyrstu skógarkolefniseiningarnar í tengslum við verkefnið hafa verið seldar hérlendis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður segir hann að miklir vaxtarmöguleikar séu í þessum geira og telur að innan fárra ára verði öllum fyrirtækjum gert skylt að kolefnisjafna rekstur sinn.

„Það eru fleiri og fleiri fyrirtæki að átta sig á því að þau verða að fara að taka ábyrgð á eigin losun. Þegar þau finna að í Evrópu er að verða til regluverk um að fyrirtæki verða að skila af sér loftslagsbókhaldi þá fara þau að taka þessi mál alvarlega,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK