Jim Ratcliffe áhugasamur um verkefnið

Sir Jim Ratcliffe.
Sir Jim Ratcliffe. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Auðjöfurinn Jim Ratcliffe er á meðal þeirra sem hafa sýnt áhuga á verkefni Skógræktarinnar sem snýst um að koma á fót viðurkenndu ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt. 

Verkefnið hefur gengið framar vonum og eru um 20 slík í undirbúningi á mismunandi stigum, að sögn Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra.

„Við getum ekki sagt annað en að þetta sé góð byrjun. Það er talsverður áhugi á þessu. Það er ekki komin mikil reynsla en hún tikkar inn á næstunni,“ segir Þröstur. „Hlutverk Skógræktarinnar er fyrst og fremst að þróa þennan staðal sem er vottað eftir og veita svo ráð með skógrækt.“

Íslenska fyrirtækið Yggdrasill Carbon er í sambandi við landeigendur og hefur milligöngu um sölu á skógarkolefniseiningum til einstaklinga og fyrirtækja.

Íslendingar í meirihluta 

Salan á einingunum virkar þannig að eftir að óháð vottunarstofa hefur staðfest að skógurinn sé til staðar, þ.e. að búið sé að planta þar trjám, er hægt að skrá einingarnar í Loftslagsskrá Íslands. Að því loknu er gerður samningur á milli landeigandans og kaupandans sem vill nota kolefniseiningarnar í sínu græna bókhaldi. Kaupandinn getur þó ekki notað þær á móti los­un gróður­húsaloft­teg­unda í bók­haldi fyrr en skóg­ur­inn er bú­inn að vaxa meira.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Spurður segir Þröstur að Íslendingar séu í meirihluta þeirra sem vilja kaupa þessar kolefniseiningar. Flest fyrirtækjanna sem vilja taka þátt eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Síldarvinnslan og Eskja hafa þegar staðfest þátttöku sína.

Á meðal erlendra fyrirtækja og einstaklinga sem hafa sýnt verkefninu áhuga, að sögn Þrastar, er hollenska skógræktarfyrirtækið Land Life og breski auðjöfurinn Sir Jim Ratcliffe, stærsti einstaki landeigandi á Íslandi. 

Flest fyrirtækjanna sem vilja taka þátt eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki.
Flest fyrirtækjanna sem vilja taka þátt eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki.

Stór markaður á heimsvísu

Spurður segir Þröstur markaðinn með skógarkolefniseiningar vera talsvert stóran á heimsvísu. Fleiri verkefni eru einnig í gangi erlendis sem snúast um sölu kolefniseininga, þar á meðal í tengslum við vindmyllur og sólarsellur. „Við erum að byrja á skógrækt á Íslandi en önnur verkefni hér geta líka farið þessa leið,“ segir Þröstur og tekur fram að markaðurinn með skógarkolefniseiningarnar sé valkvæður eins og staðan er núna. Fyrirtæki á Íslandi þurfi ekki samkvæmt lögum að skila loftslagsbókhaldi en mörg kjósi engu að síður að gera það. Þannig vilji þau bera ábyrgð á losun sinni.

Þröstur bendir þó á að fyrirtæki í ETS-kerfi Evrópusambandsins eru þar undanskilin. Á meðal þeirra eru íslensk álfyrirtæki og flugfélög. Um er að ræða viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda í tengslum við mótvægisaðgerðir að hálfu ESB samkvæmt Kyoto-bókuninni.

Þröstur nefnir að núna séu fleiri en bara ríkissjóður að fjárfesta í skógrækt á Íslandi, sem sé hið besta mál upp á framtíðina að gera.

Skógur í Heiðmörk.
Skógur í Heiðmörk. mbl.is/Árni Sæberg

Vantar fjárfesta inn í myndina

Spurður hvernig íslenskir bændur hafi tekið í verkefni Skógræktarinnar segir hann þá hafa hugsað mikið út í það. „Flestir hafa ekki mikinn pening til þess að fjármagna skógrækt. Þeir hafa ekki aðgang að fjárfestingunni sem þarf, því upphaflega fjárfestingin er margar milljónir eða tugir og jafnvel hundruð eftir því hve svæðið er stórt,“ útskýrir Þröstur.

„Þess vegna vantar inn í þessa mynd fjárfesta sem eru tilbúnir að fjárfesta í svona verkefni á þeim forsendum að þeir geti náð hluta af þessu til baka með sölu kolefniseininga.“

Í öllum landshlutum

Hann segir bændur aftur á móti eiga landsvæði. Þeir geta komist í samband við fjárfesta til að fjármagna skógræktina í gegnum Yggdrasil Carbon. „Þeir eru að tengja saman bændur sem eiga land og fjármagnseigendur og búa til verkefni með þeim.“

Landeigandinn skuldbindur sig þannig til að viðhalda skóginum í að minnsta kosti 50 ár. Þröstur segir svæði með nýskógrækt í undirbúningi í öllum landshlutum hérlendis og tekur fram að Vestfirðir séu þar á meðal.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka