Með 100 milljón streymisspilanir

Gabríel Ólafsson tekur tónlist sína upp í tónlistarhúsinu Hörpu en …
Gabríel Ólafsson tekur tónlist sína upp í tónlistarhúsinu Hörpu en Decca Records greiðir kostnaðinn.

Tónlistarmaðurinn Gabríel Ólafsson náði þeim merka áfanga á dögunum að tónlist hans hafði verið streymt samtals meira en 100 milljón sinnum á streymisveitunum Spotify, Apple Music og Amazon Music.

Gabríel segir í samtali við Morgunblaðið að síðustu áratugina hafi hlustun á sígilda tónlist eins og þá sem hann semur farið minnkandi. Það sé nú að breytast með tilkomu streymisveitnanna. Nýjar kynslóðir séu farnar að uppgötva þessa tegund tónlistar. „Í augnablikinu er tónlist mín spiluð níu milljón sinnum á mánuði,“ segir hann.

Gabríel er tuttugu og fjögurra ára gamall. Hann skrifaði undir fyrsta útgáfusamning sinn við One Little Indian í Bretlandi aðeins nítján ára gamall. Nú er hann kominn á samning við Decca Records, sem er í eigu útgáfurisans Universal Music Group. „Það hefur komið mér rosalega mikið á óvart að tónlist án söngs sé að ná svona gríðarlegri spilun. Ég fór mjög fljótlega upp í milljón spilanir á streymisveitum.“

Hann segir að auk þess sem tónlistin sé vinsæl á veitunum sé hún einnig gefin út á vínilplötum og seld um allan heim.

„Stór hluti af velgengninni á streymisveitum er að vera inni á vinsælum spilunarlistum. Þetta eru listar með sígildri tónlist sem gott er að hlusta á þegar þú ert að slaka á eða hugsa í rólegheitum,“ segir Gabríel.

Með Debussy og Schumann

Einn þessara lista heitir Calming Classical eins og Gabríel útskýrir. Þar er listamaðurinn í hópi ekki ómerkari tónskálda en Claudes Debussys og Roberts Schumanns. Tónlist í flutningi píanóleikarans Víkings Heiðars Ólafssonar er þar einnig að finna.

„Þessi listi er með rúmlega sex hundruð þúsund fylgjendur og hlustunin er fljót að safnast upp.“

Gabríel segir um tónlistina að hann leggi sig fram um að semja góðar laglínur og vekja tilfinningar. „Ég reyni að semja út frá tilfinningu fyrst og fremst. Ég vil gera eitthvað sem stenst tímans tönn.“

Tónlistarmaðurinn hljóðritar í Hörpu í aðstöðu sem fyrirtæki hans Reykjavik Recording Orchestra er með. Félagið hefur unnið verkefni fyrir ekki minni spámenn en Hans Zimmer og David Attenborough og fyrirtæki á borð við Apple og Universal, eins og fjallað var um í Dagmálum á mbl.is fyrr í vetur.

Tónleikaferðalag í haust

Aðspurður segist Gabríel leggja upp í tónleikaferðalag til Evrópu næsta haust. „Ég vel mér tónleikastaði með góðum hljómburði og vönduðum hljóðfærum.“

Ný plata er væntanleg á markaðinn níunda júní nk. að sögn Gabríels. Hún er byggð á íslenskum vögguvísum og verður markaðssett og seld um allan heim. „Ég fullyrði að hún verður vinsælasta platan mín til þessa. Þetta er plata fyrir píanó og selló. Steiney Sigurðardóttir leikur á sellóið en ég spila á slaghörpuna. Þetta er heiðarleg og einföld tónlist og engar flugeldasýningar. Ég held að fólk kunni vel að meta það. Þetta eru vandaðar laglínur með heiðarlegum hætti. Ég er ekki að flækja tónlistina bara til að flækja hana.“
Gabríel finnst það einmitt of algengt í íslenskri samtímatónlist að tónskáld flæki tónlistina of mikið. „Innihaldið verður ekkert betra með meira flækjustigi,“ segir Gabríel.

Spurður hvort að tekjurnar séu ekki orðnar miklar segir Gabríel það ekki sjálfgefið.

„Útgáfan fær meira en þú. Ég hef eytt tugum milljóna króna í upptökurnar sem útgáfan greiðir. Þetta virkar þannig að fyrst fara tekjurnar af tónlistinni í að borga til baka framleiðslukostnaðinn en eftir það skiptum við með okkur tekjunum,“ segir hann.

Gabríel segist horfa á starfsemina eins og sprotafyrirtæki.

„Ferillinn minn er eins og sproti sem ég fjárfesti í í þeirri von að lifa á honum í framtíðinni.“

List og viðskipti tabú

Listamaðurinn segir að það sé ákveðið tabú á Íslandi að ræða um listir og viðskipti í sömu andrá. Sjálfum finnst honum ekkert að því. „Það er ekki svo ólíkt að reka fyrirtæki og vera tónlistarmaður.“
Um markmiðin á næstu misserum og árum segist Gabríel stefna að því að auka mánaðarlega hlustun og plötusölu. Þá sé hann opinn fyrir því að semja tónlist fyrir kvikmyndir eða dansverk. „Mér finnst áhugavert að blanda margs konar list saman. En mestu skiptir að skilja eitthvað eftir sig sem skiptir máli,“ segir Gabríel að endingu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK