Heimsmarkaðsverð á olíu hækkar nú ört í kjölfar tilkynningar olíuframleiðsluríkjanna Sádi-Arabíu, Kúveit og Sameinuðu arabísku furstadæmanna um að draga úr framleiðslu sinni um sem nemur 772.000 tunnum á dag í von um að koma stöðugleika á markaðinn.
Tunnuverð Norðursjávarolíu er nú 84,42 dalir og hefur hækkað um átta prósent síðustu fimm daga, hækkun á Asíumörkuðum við opnun þeirra í morgun var sex prósent. Blaðið Economic Times spáir því að verðið nái 95 dölum í desember en greinendur SEB-fjárfestingarbankans í Noregi telja það hins vegar fara yfir 100 dali.
Bjarne Schieldrop, greinandi hjá SEB, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í dag, að tilkynning framleiðsluríkjanna þriggja hafi komið á óvart, ekkert hafi fyrir fram bent til þess að þessi ákvörðun þeirra lægi í loftinu. „Þvert á móti hafði Sádi-Arabía tilkynnt að engar breytingar væru fram undan,“ segir Schieldrop.
Norska krónan hefur nú styrkst um 0,4 prósent gagnvart bandarískum dal enda er hún tengd olíuverðlagi og skrifaði Bloomberg-fréttaveitan í nótt að norska krónan leiddi styrkingarlotu fleiri gjaldmiðla sem reiða sig á hrávöruframleiðslu.
Rússar fylgja OPEC+-ríkjunum eftir og boða framleiðsluskerðingu um 500.000 tunnur á dag út árið en Alsír, Óman og Írak draga einnig úr framleiðslu og nemur heildarframleiðsluskerðingin um 1,6 milljónum tunna dag hvern frá maímánuði og út árið.