Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar segir hæpið að fasteignagjöld af stíflum eða öðrum orkumannvirkjum geti þjónað sem tæki til að tryggja sveitarfélögum tekjur af orkuframleiðslu í nærumhverfi sínu. Vissulega séu greiddar háar fjárhæðir af stöðvarhúsum virkjana en slíkt sé ekki gert með önnur mannvirki sem tengjast orkuöfluninni.
„[...] við erum svo með að aðrar eignir sem tengjast virkjanarekstri, eins og stíflur, jarðgöng, fallgöng, frárennslisskurðir, vélbúnaður og tækjabúnaður sem er ekki hluti af fasteignagjöldum en engar sambærilegar eignir annarra fyrirtækja eru andlag fasteignagjalda, t.d. brýr, skurðir eða jarðgöng eða snjóflóðavarnagarðar eða hafnargarðar eru aldrei andlag fasteignagjalda þannig að ég er ósammála því að gefnir séu verulegir afslættir.“
Hörður er gestur Dagmála.
Þar segir hann að í raun væri óeðlilegt að fella þessi mannvirki undir skilgreininguna á fasteignagjöldum. Nær væri að fara aðrar leiðir til að tryggja sveitarfélögum tekjur af orkuvinnslunni.
„Eitt alvarlegasta vandamálið varðandi greiðslur til sveitarfélaganna er hversu þessu er misskipt. Ef við tökum Kárahnjúkavirkjun sem dæmi þá er lítill hreppur sem heitir Fljótsdalshreppur þar sem stöðvarhúsið er. Þar búa 100 manns ef ég man rétt. Þeir fá miklar tekjur af stöðvarhúsinu. Svo er það Múlaþing, þar eru eiginlega öll umhverfisáhrifin, þar er lónið, þar er frárennsli í gegnum Löginn [Lagarfljót] sem breytti um lit eins og var vitað. Þeir fá engin gjöld. Þannig að þetta er fyrst og fremst til marks um að fasteignagjaldaformið er ekki góð leið til að koma ávinningi til sveitarfélaganna.“
Bendir hann auk þess á að þetta sé ekki einsdæmi og vísar þar raunar í mál sem nokkuð hefur verið til umræðu að undanförnu varðandi virkjanaframkvæmdir í Þjórsá.
„Við sjáum t.d. með Hvammsvirkjun að stöðvarhúsið í Rangárþingi ytra en ekki í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem umhverfisáhrifin eru meiri. Öll fasteignagjöldin lenda austan megin við ánna.“
Leggur Hörður því til aðra leið en að veita fjármagni til sveitarfélaganna í formi aukinna fasteignagjalda.
„Það væri miklu skynsamlegra að mínu mati að það væri tekin upp greiðsla fyrir hverja kílóvattsstund sem er framleidd. Það er t.d. gert í Noregi. Þar eru ekki fasteignagjöld af stíflum og þannig yrði greitt til sveitarfélaganna. Náttúruauðlindaskattur er þetta kallað í Noregi sem gæti verið fyrir hverja framleidda kílóvattstund sem er dreift á áhrifasvæði virkjananna.“
Viðtalið við Hörð er hægt að sjá og heyra í heild sinni hér: