Þrír stjórnendur hafa hafið störf hjá Samkaupum eftir breytingar hjá félaginu. Helga Dís Jakobsdóttir er nýr markaðs- og upplifunarstjóri Nettó og Iceland-verslananna. Þá er Bjarki Snær Sæþórsson nýr sölustjóri Nettó og Iceland-verslana og Oliver Pétursson nýr sölustjóri Krambúða og Kjörbúða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Helga Dís hóf störf hjá Samkaupum í febrúar 2021, þá sem þjónustu- og upplifunarstjóri Nettó. Áður starfaði hún á fjármálasviði Bláa lónsins og á veitingastaðnum Hjá Höllu á Keflavíkurflugvelli. Helga Dís útskrifaðist með BS-gráðu í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og forystu og MS-gráðu í þjónustustjórnun frá Háskóla Íslands.
Bjarki hóf störf hjá Samkaupum árið 2008. Þá hefur hann starfað í Nettóbúðum um allt land, bæði sem aðstoðarverslunarstjóri og verslunarstjóri. Áður en hann tók við sem sölustjóri Nettó og Iceland-verslana starfaði hann sem sölustjóri Krambúða og Kjörbúða. Samhliða störfum sínum stundar Bjarki nám í viðskiptafræði með áherslu á þjónustu við Háskólann á Bifröst.
Oliver hefur starfað í verslunargeiranum frá árinu 1996. Hann hefur reynslu af stjórnun vöruhúsa, verkefnastýringu í uppsetningu búða og erlendum innkaupum. Hjá Samkaupum hefur Oliver verið verkefnastjóri á verslunarsviði og haft með höndum vörustýringu, uppsetningu á verslunum og vöruflokkum og verið innkaupastjóri frystivöru. Nú síðast starfaði hann í vörustýringu á innkaupasviði og við innleiðingu á nýju vörustýringarkerfi.
Hjá Samkaupum starfa alls um 1.300 manns í tæplega 700 stöðugildum. Samkaup reka um 60 verslanir víðs vegar um landið. Helstu verslanamerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.