Nokkur óvissa ríkir um skráningaráform íslenskra fyrirtækja eftir því sem vextir hafa hækkað, markaðsaðstæður versnað og möguleikar fjármálastofnana til að endurfjármagna sig þrengst.
Vitað er að þrjú ferðaþjónustufyrirtæki hafa stefnt á markað. Bláa lónið stefnir enn á skráningu í haust eða þegar aðstæður batna. Hið sama má segja um Íslandshótel. Óljósara er með skráningaráform Arctic Adventure eftir að núverandi hluthafar nýttu forkaupsrétt á hlutafé sem Hugh Short (sem var felldur sem stjórnarformaður Nova í liðinni viku) hafði gert kauptilboð í félagið fyrir hönd PT Capital.
Þá hafa Sidekick Health og Lucinity hægt verulega á vaxtaráformum sínum með það fyrir augum að lengja tímann þar til þau þurfa að sækja sér nýtt fjármagn. Coripharma hefur einnig kælt skráningaráform sín en leitar þess í stað að innspýtingu frá fagfjárfestum. Þá tilkynnti Algalíf í desember sl. að stefnt væri að skráningu árið 2025 en það gæti orðið næsta stóra skráningarárið í Kauphöllinni.
Í nóvember sl. voru fluttar fréttir af því að undirbúningur væri hafinn að söluferli Veritas-samstæðunnar, eins stærsta fyrirtækis landsins. Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans hefur söluferlið nú verið sett á ís.
Að lokum má nefna að enn er stefnt að því að selja minnihluta ríkisins í Íslandsbanka á árinu, ef aðstæður leyfa. Þó er enn óvíst hvort og þá hvenær þau áform ganga eftir. Eftir því sem líður á kjörtímabilið kunna líkur að minnka á því að stjórnmálamenn treysti sér í slíkt verkefni skömmu fyrir kosningar, nema að um það ríki þverpólitísk sátt.