Endurnýjun flotans legið fyrir í þó nokkurn tíma

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í samtali við mbl.is að það hafi legið fyrir í þó nokkurn tíma að það þurfi að endurnýja flugflota Icelandair. Félagið hefur verið í nánu samstarfi við Boeing í mörg ár en kaupir nú Airbus vélar. 

Icelanda­ir hefur nú skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup á 13 flug­vél­um af gerðinni Air­bus A321XLR og kauprétt að tólf flug­vél­um til viðbót­ar. Nýju vélarnar verða af­hent­ar frá og með ár­inu 2029. 

„Það hefur legið fyrir í ákveðinn tíma að 757 vélarnar sem að hafa þjónað félaginu og leiðakerfinu mjög vel til mjög margra ára eru komnar til ára sinna,“ segir Bogi og á þar við Boeing 757 flug­vél­ar fé­lags­ins sem hafa þjónað Icelandair frá árinu 1990. Gert er ráð fyrir að þær verði notaðar í rekstri til ársins 2026. 

„Þannig að það hefur legið fyrir í svolítinn tíma að við höfum þurft vélar sem að geta leyst þær af hólmi,“ segir hann og bætir við að málið hafi verið skoðað í nokkuð langan tíma.

Skrifuðu undir í gærkvöldi

Bogi segir að félagið hafi verið í samningaviðræðum við bæði Airbus og Boeing í þó nokkurn tíma.

„Við vorum með tvo ágætis kosti fyrir framan okkur og niðurstaðan er að við skrifuðum undir viljayfirlýsingu við Airbus í gærkvöldi.“

Hann segir að félagið sjái fram á mikla möguleika í leiðakerfinu en Air­bus A321XLR flug­vél­in hef­ur allt að 8.700 km drægni.

Bogi segir að fyrstu Airbus vélarnar verða leigðar fyrir sumarið 2025. Þær verði þá reknar samhliða Boeing 737 MAX flugvélunum.

Boeing áfram mikilvægur samstarfsaðili

Icelandair hefur verið í samstarfi við Boeing í fjöldamörg ár og segir Bogi að ekki sé verið að slíta því samstarfi. 

„Við erum að reka í sumar 34 Boeing vélar í alþjóðaleiðakerfinu og þá erum við með nokkrar cargo vélar þannig að þetta eru yfir 40 vélar. Það liggur alveg fyrir að við verðum að reka margar Boeing vélar næstu ár. Þannig að Boeing verður mjög mikilvægur samstarfsfélagi áfram og nú bætist bara Airbus þar við,“ segir hann og bætir við að nýverið voru teknar í notkun tvær Boeing 767 cargo vélar. Þá verði bætt við Boeing 737 MAX flugvélum fyrir sumarið. 

Nú liggur fyrir að starfsmenn þurfa þjálfun á nýju Airbus vélunum, þýðir það að mikið verk sé fyrir höndum?

„Já, á nokkrum sviðum liggur fyrir þjálfun starfsmanna. Það er spennandi verkefni framundan og allir spenntir fyrir því verkefni,“ segir Bogi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK