Íslenska auglýsingastofan The Engine hefur verið tilnefnd til verðlauna í sjö flokkum á Evrópsku leitarverðlaununum (e. European Search Awards) fyrir verkefni sem unnin voru fyrir Reykjavík Excursions og þýska fyrirtækið Demicon.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að um sé að ræða stærstu stafrænu markaðsverðlaun sem veitt séu í Evrópu. Hundruð auglýsingastofa frá yfir fjörtíu löndum taki þátt í keppninni á hverju ári og heildarfjöldi innsendinga hleypi á þúsundum.
„Ég er orðlaus yfir þessum árangri og heiðri sem okkur er sýndur með þessum fjölda tilnefninga. Við erum sérstaklega ánægð fyrir hönd okkar frábæru viðskiptavina í Reykjavik Excursions og svo þýska UT-fyrirtækisins Demicon.
Þessi verðlaun eru þau allra stærstu í stafræna markaðsheiminum í Evrópu í dag og sérstakur heiður að upplifa að vera með þeim allra bestu í Evrópu. Okkar hæfa starfsfólk á mikinn heiður skilið,“ er haft eftir Hreggviði S. Magnússyni, framkvæmdastjóra The Engine, í tilkynningunni.
The Engine er með starfsstöðvar í Kaupmannahöfn, Osló og Reykjavík. Stofan er hluti af Pipar\TBWA.