Ungverska flugfélagið Wizz Air situr í toppsæti lista bresku flugmálastofnunarinnar, CAA, yfir mestar seinkanir á áætlunarflugi frá flugvöllum í Bretlandi árið 2022, að meðaltali 46 mínútur og sex sekúndur.
Þrefaldar félagið þar með lengd þess seinkunartíma sem því var eignaður árið áður, 2021, en þá var Wizz einnig efst á seinkunarlistanum.
Náði athugun CAA til alls áætlunar- og leiguflugs frá flugvöllum landsins hjá flugfélögum með fleiri en 2.500 flugferðir árlega. Meðalseinkunartími allra flugferða sem skoðaðar voru var 23 mínútur en þau flugfélög sem fylgdu á hæla Wizz á listanum voru:
Tui: 40:18
Qatar Airways: 31:48
Turkish Airlines: 29:30
Pegasus Airlines: 27:18
Maí og júní reyndust þeir mánuðir síðasta árs sem hve síst var á vísan að róa með að flug hæfist á réttum tíma og er því kennt um í skýrslu CAA að flugfélögin hafi ekki náð að ráða til sín starfsfólk í tíma er losnaði um ferðahömlur í kjölfar heimsfaraldursins og eftirspurn jókst upp úr öllu valdi á örskotsstundu.
Rory Boland, ritstjóri ferðatímaritsins Which? Travel, segir frammistöðu sumra flugfélaga lítið koma á óvart. „Þessar tölur eru áhyggjuefni en ættu ekki að koma farþegum á óvart sem hafa mátt þola napra framkomu flugfélaga um árabil.“
„Of margir farþegar máttu þola vonbrigði vegna seinkana,“ segir Paul Smith, verkefnisstjóri neytendamála hjá CAA. Hefur sú umræða komið upp að stofnunin fái aukið vald til að beita flugfélög viðurlögum en þaðan hefur engin niðurstaða borist enn sem komið er. Smith telur vænlega leið til úrbóta að CAA geti lagt sektir á flugfélög.
„Þegar hlutirnir fara úrskeiðis ætlumst við til þess að flugfélög hafi frumkvæði að því að kynna farþegum réttindi þeirra auk þess að bjóða stuðning sinn og aðstoð tímanlega,“ segir hann.