Farþegum Icelandair fjölgar um 57%

Farþegar í millilandaflugi voru 230 þúsund í mars.
Farþegar í millilandaflugi voru 230 þúsund í mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heildarfjöldi farþega Icelandair var um 255 þúsund í liðnum mars, samanborið við 184 þúsund í mars í fyrra. Sætaframboð í mars jókst um 27% miðað við fyrra ár. Sala var mjög góð í marsmánuði og sló mánuðurinn miðasölumet sem sett var í janúar síðastliðnum.

Frá þessu greinir flugfélagið í tilkynningu.

Segir þar að farþegar í millilandaflugi hafi verið 230 þúsund, eða 43% fleiri en í mars 2022 þegar 161 þúsund millilandafarþegar flugu með félaginu.

„Fjöldi farþega til Íslands var 118 þúsund og frá Íslandi 45 þúsund. Tengifarþegar voru um 67 þúsund. Stundvísi í millilandaflugi var 82%. Sætanýting í millilandaflugi var 81,8% og jókst mikið eða um 8,2 prósentustig á milli ára,“ segir í tilkynningunni.

Fjöldi farþega í innanlandsflugi hafi þá verið um 25 þúsund, samanborið við 23 þúsund í mars í fyrra. Stundvísi þeirra flugferða 90% og sætanýting í innanlandsflugi 76,3%.

Sætanýting í Ameríkuflugi aldrei betri

„Seldir blokktímar í leiguflugi voru 20% fleiri en í mars í fyrra. Fraktflutningar jukust sömuleiðis um 20% á milli ára. Aukning í fraktflutningum skýrist fyrst og fremst af því að félagið bætti breiðþotu við fraktflotann í lok síðasta árs sem eykur fraktrými. Aukningin í leiguflugi skýrist af því að starfsemi viðskiptavina félagsins er að ná sér á strik á ný eftir heimsfaraldur.“

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að félagið sjái áframhaldandi mikla fjölgun farþega á milli ára. Á fyrsta fjórðungi þessa árs hafi Icelandair flutt 57% fleiri farþega en á sama tíma á síðasta ári.

„Flugframboðið jókst um 38% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi og sætanýtingin um 10,1 prósentustig. Sætanýting var mjög góð í liðnum mánuði og hefur til að mynda aldrei verið betri í flugi til og frá Norður-Ameríku í marsmánuði,“ segir Bogi.

Detroit, Prag, Tel Aviv og Krít

„Nú vinnur starfsfólk hörðum höndum að því að undirbúa sumaráætlunina, þjálfun er í fullum gangi og sumaráfangastaðirnir opna hver af öðrum. Í sumar kynnum við Detroit, Prag og Tel Aviv sem nýja áfangastaði auk þess sem við hófum aftur flug til Barcelona í byrjun apríl,“ bætir hann við.

„Krít kemur svo í fyrsta skipti inn í leiðakerfið í vikulegu flugi frá og með lokum maí. Þá höfum við einnig aukið tíðni til margra áfangastaða og því hafa viðskiptavinir úr miklu að velja í sumar, bæði hvað varðar fjölda áfangastaða og tíðni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK