Reykjavíkurborg hefur ákveðið að hætta við fyrirhugað skuldabréfaútboð sem átti að fara fram á morgun, miðvikudaginn 12. apríl. Þetta er í annað sinn á tveimur mánuðum sem borgin hættir við fyrirhugað skuldabréfaútboð.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar, sem send var eftir lokun markaða í dag, kemur fram að í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 sé áformað að taka lán fyrir allt að 21 milljarði króna að markaðsvirði, ýmist með útgáfu skuldabréfa á skuldabréfamarkaði, með beinni lántöku eða öðrum hætti.
Fram kemur í tilkynningunni að borgin hafi þegar selt skuldabréf fyrir um 4,1 milljarð króna og dregið þrjá milljarða króna á langtíma lánalínu hjá Íslandsbanka. Lántaka Reykjavíkurborgar það sem af er ári er þannig uppgefin um sjö milljarðar króna, eða um þriðjungur því sem áætlað er fyrir árið.