Markaðsaðilar sem þekkja vel til á skuldabréfamarkaði segja Reykjavíkurborg hafa viljað forðast niðurlægingu á markaði með því að hætta við fyrirhugaða skuldabréfaútgáfu sem átti að fara fram í dag. Borgin tilkynnti eftir lokun markaða í gær að hætt hefði verið við útgáfuna, annan mánuðinn í röð.
Viðmælendur ViðskiptaMoggans eru samhljóma um það að lítill áhugi hafi verið fyrir hendi af hálfu markaðsaðila um að taka þátt í fyrirhuguðu útboði borgarinnar. Því megi ætla að áhugaleysi þeirra á útgáfunni hefði reynst niðurlægjandi fyrir borgina, enda felist í því ákveðið vantraust á fjárhagsstöðu og greiðslugetu hennar.
Legið hefur fyrir að Reykjavíkurborg stefndi að því að sækja um 21 milljarð króna í lánsfé fyrri hluta ársins, ýmist með nýrri skuldabréfaútgáfu, stækkun á núverandi skuldabréfaflokkum, eða öðrum leiðum sem taka mið af markaðsaðstæðum.
Borgin hefur nú þegar sótt um fjóra milljarða króna með skuldabréfaútgáfu og dregið þrjá milljarða (af sex mögulegum) á lánalínu hjá Íslandsbanka. Þá hefur borgin aðgang að sambærilegri lánalínu hjá Landsbankanum. Hvorki náðist í Einar Þorsteinsson, formann borgarráðs, né Dag B. Eggertsson borgarstjóra vegna málsins í gær.