Gengi bréfa í líftæknifélaginu Alvotech hafa hríðlækkað í Kauphölli í morgun. Seint í gærkvöldi var greint frá því að Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) hefði neitað Alvotech um markaðsleyfi fyrir AVT02 sem líftæknilyfjahliðstæðu við Humira (adalimumab).
Í bréfi FDA kemur fram að eftirlitið geti ekki veitt markaðsleyfið þar til Alvotech hafi brugðist með fullnægjandi hætti við ábendingum sem FDA greindi fyrirtækinu frá í kjölfar úttektar á framleiðsluaðstöðu fyrirtækisins í Reykjavík, sem lauk 17. mars sl.
Þegar þetta er skrifað, um kl. 10.30, hefur gengi bréfa í félaginu lækkað um 14% frá opnun markaða í morgun. Þó er rétt að hafa í huga að gengi bréfa í félaginu hafa eftir sem áður hækkað um tæp 44% frá því að félagið var skráð á markað í byrjun júlí sl. Velta með bréf í félaginu það sem af er degi er þó ekki mikil, um 240 milljónir króna.
Að öðru leyti er rauður morgun í Kauhöllinni. Gengi bréfa í Sjóvá hefur lækkað um 3,7%, í Reitum um 2,6% og í Reginn og Högum um 2,3%. Þá hefur gengi bréfa í Icelandair og VÍS lækkað um 1,9%.
Eina félagið sem hefur hækkað það sem af er degi er Nova, en gengi bréfa í félaginu hefur hækkað um 1,7% í tveggja milljarðar króna viðskiptum. Viðskiptablaðið greindi frá því í morgun að Nova Acquisition Holding ehf., stærsti hluthafi Nova, hefði selt allan sinn hlut í morgun – en félagið átti um 11% hlut í Nova. Nova Asquisition Holding er í eigu sjóðs í stýringu fjárfestingafélagsins Pt. Capital frá Alaska. Hugh Short, framkvæmdastjóri félagsins, var stjórnarformaður Nova fram að síðasta aðalfundi en var felldur úr stjórn í lok mars.