Ás fasteignasala sendi fyrstu skjölin í rafræna þinglýsingu í vikunni, en fimmtudaginn 13. apríl sendi fasteignasalan afsal með rafrænum hætti til sýslumanns.
Aron Freyr Eiríksson, löggiltur fasteignasali og annar eiganda fasteignasölunnar, sagði í samtali við mbl.is að þróunin væri stórt skref í sögu fasteignaviðskipta.
„Félag fasteignasala hefur verið í samstarfi við Stafrænt Ísland, HMS, Dokobit og ThinkSoftware, sem er með HomeEd fasteignasölukerfið, í að þróa þetta. Við vorum svona tilraunadýrin í þessari þróun“.
Aron segir rafrænar þinglýsingar þó aðeins einn lið í rafvæðingu á fasteignasölu og að Ás hafi til að mynda nýtt rafrænar undirritanir kauptilboða um nokkra hríð.
Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að fleira verða rafvætt í fasteignaviðskiptum í framtíðinni, svarar Aron því játandi. Bankar séu nú þegar byrjaðir að þinglýsa lánaskjölum fyrir endurfjármögnun rafrænt, en næst á dagskrá sé að hægt verði að þinglýsa lántökuskjölum í fasteignaviðskiptum, kaupsamningum og öllu sem snertir fasteignaviðskipti.
„Í framtíðinni verður hægt að þinglýsa öllu rafrænt, þetta er bara fyrsta skrefið af mörgum“.
Aron segir þróunina halda áfram, en að sumar eignir þurfi áfram að meðhöndla handvirkt. Til að mynda séu sumar kvaðir sem kerfið lesi ekki, sérstaklega þegar eldri fasteignir eiga í hlut. Aron segir það einfaldlega vera vegna þess að enn sé ekki búið að koma öllum þinglýstum skjölum á rafrænt form inn í rafræn kerfi sýslumanns.