Miðað við fyrri úrskurði fjármálaeftirlitsins er líklegt að það rannsaki hvort Reykjavíkurborg hafi ekki borið að flagga því í Kauphöllinni í upphafi mars, að borgarstjórn hafi borist aðvörunarbréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) vegna fjárhagsáætlunar fyrir 2023. Við því hafa legið stjórnvaldssektir. Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur ekki viljað segja af eða á um hvort málið sé til rannsóknar.
Reykjavíkurborg er með skuldabréfaflokka í Kauphöllinni og því skyld til þess að tilkynna allt sem áhrif kann að hafa á markaðinn. 28. febrúar barst henni bréf EFS um að fjárhagsáætlunin uppfyllti ekki lágmarksviðmið um fjármál sveitarfélaga og þarf að ákveða og tilkynna EFS viðbrögð fyrir 28. apríl.
Árið 2016 komst fjármálaeftirlitið að því að Kópavogsbær hefði brotið lög um verðbréfaviðskipti með því að hafa ekki birt innherjaupplýsingar í samþykkt bæjarstjórnar 2014, eins fljótt og auðið var.
Kópavogsbær var útgefandi skuldabréfa, skráðra í Kauphöllinni, en umrædd samþykkt sneri að aðgerðum til að mæta „neyðarástandi á húsnæðismarkaði“, sem ljóst var að myndi kosta bæinn um 3,3 ma. kr.
Frétt um samþykktina var birt á mbl.is sama kvöld og hún var samþykkt, en Kópavogsbær sendi ekki tilkynningu til Kauphallarinnar fyrr en um hádegið daginn eftir. Kauphöllin kvartaði undan því við fjármálaeftirlitið, sem lagði 3 milljóna króna sekt á Kópavogsbæ fyrir að hafa verið of svifaseinn.
Morgunblaðið spurði Halldóru Káradóttur, sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkur, hvort ekki hefði átt að upplýsa um bréf EFS í Kauphöll, en hún sagði svo ekki vera, þar hefði ekki verið um „nýjar eða óþekktar upplýsingar að ræða“.
Það kann að reynast umdeilanlegt, því enda þótt fjármálaáætlunin hafi verið tilefni bréfs EFS, þá hefur aðvörunarbréfið nýjar og sérstakar afleiðingar í för með sér. Borgarstjórn ber að ræða málið og kynna nefndinni viðbrögð til úrbóta, en nefndin og ráðuneyti hafa mjög rúmar valdheimildir til frekari aðgerða, hrökkvi þau ekki til.