Atvinnuleysi hefur dregist lítillega saman vegna eftirspurnar í ferðaþjónustu. Þó hefur dregið úr eftirspurn í flestum atvinnugreinum. Þá segir að áhugavert verði að fylgjast með næstu samningslotu á komandi hausti þar sem búist er við því að spennustig á vinnumarkaði hafi áhrif á viðræðurnar. Þetta segir í samantekt hagfræðideildar Landsbankans um horfur á Íslandi.
„Atvinnuleysi dróst lítillega saman í mars og stóð í 3,5%. Í flestum atvinnugreinum virðist hafa dregið lítillega úr eftirspurn eftir starfsfólki frá því í desember en þó hefur eftirspurnin aukist snarlega í greinum tengdum ferðaþjónustu. Hversu mikil sem eftirspurnin verður má telja ólíklegt að atvinnuleysi minnki að ráði, enda hefur aukinni eftirspurn eftir vinnuafli á síðustu mánuðum verið mætt með aðflutningi fólks til landsins og er slíkur aðflutningur í hæstu hæðum.
Kjarasamningarnir sem samþykktir voru undir lok síðasta árs og í byrjun þessa árs gilda aðeins til eins árs og því má gera ráð fyrir að óvissan á vinnumarkaði verði strax í haust orðin álíka mikil og hún var í aðdraganda síðustu samningalotu. Spennan á vinnumarkaði hefur aukið á launaþrýsting og bætt samningsstöðu launafólks frá því að faraldrinum lauk. Nýjustu gögn benda þó til þess að dregið gæti úr spennunni. Það verður því áhugavert að fylgjast með þróuninni fram að næstu samningalotu, enda má ætla að spennustigið á vinnumarkaði setji svip sinn á viðræðurnar, í bland við verðbólgu- og vaxtastig,“ segir í tilkynningu frá Hagfræðideild Landsbanka.