Segir borgarstjóra fara með rangt mál

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tal borgarstjóra um að borgin hafi orðið fyrir tekjufalli í kórónuveiru-faraldrinum en samt viðhaldið fjárfestingaáætlun er alls kostar ekki rétt.

Þetta segir Þórður Gunnarsson hagfræðingur í nýjasta þætti hlaðvarps Þjóðmála. Þar ræða hann og Örn Arnarson, ritstjórnarfulltrúi á Viðskiptablaðinu, meðal annars um fjárhagsvandræði Reykjavíkurborgar og þá ákvörðun að ráðast ekki í skuldabréfaútboð í síðustu viku eins og áætlað var.

Þórður segir að margir hafi varað við þessari vegferð [í fjármálum borgarinnar] í nokkur ár. Það hlakki þó ekki í þeim hópi því staða borgarinnar nú sé mjög alvarleg. Því næst vísar hann í orð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, sem svaraði því til í síðustu viku að borgin hafi orðið fyrir tekjufalli á liðnum árum, meðal annars í samtali við mbl.is.

„Þetta er sagt í trausti þess að menn kynni sér ekki ársreikninga borgarinnar, því það varð ekkert tekjufall hjá sveitarfélögunum,“ segir Þórður.

Hann bendir á að tekjur Reykjavíkurborgar hafi á árinu 2020 numið 129 milljörðum króna, og aukist um fimm milljarða króna á milli ára. Þá hafi fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum dregist saman um þriðjung sama ár. Árið 2021 hafi tekjur borgarinnar numið 142 milljörðum króna og aukist um tæpa 14 milljarða króna á milli ára – sem var nokkuð umfram áætlanir. Fjárfestingar hafi þó aftur dregist saman í krónum talið verið langt undir áætlunum.

Frekari bankafjármögnun ekki sjálfgefin

Örn segir í þættinum að allt bendi til þess að borgin sé með neikvætt veltufé frá rekstri.

„Markaðurinn hefur enga trú á þeim áformum sem sett hafa verið fram um að gera eitthvað vitrænt í fjármálum borgarinnar. Það endurspeglast meðal annars í því hvernig krafan á skuldabréfum borgarinnar hefur þróast. Markaðurinn er þannig séð lokaður fyrir borgina,“ segir Örn þegar rætt er um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að ráðast ekki í skuldabréfaútboð.

Hann segir að þetta hafi leitt til þess að borgin hafi þurft að fjármagna sig með ádrátti á lánalínur frá bönkunum. Allt bendi þó til þess að kjörin á slíkum lánalínum sé há en þá sé jafnframt ósennilegt að frekari fjármögnun standi borginni til boða af hálfu bankanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK