Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur krafið um 30 sjávarútvegsfyrirtæki í landinu um ítarlegar upplýsingar um rekstur þeirra. Krafan um upplýsingarnar er hluti af sérstakri athugun eftirlitsstofnunarinnar sem miðar að því að kortleggja stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi.
ViðskiptaMogginn greindi frá því í um miðjan október sl. að SKE hefði að eigin frumkvæði ráðist í fyrrnefnda athugun. Það var þó matvælaráðuneytið, en ekki SKE, sem tilkynnti fyrst um athugunina á vef sínum í byrjun október sl. Um leið var kynnt að gerður hefði verið samningur við SKE til að tyggja „fjárhagslegt svigrúm“ til að ráðast í úttektina. Í því fólst sérstök greiðsla, um 35 milljónir króna, frá ráðuneytinu til SKE.
Í tilkynningu ráðuneytisins, þegar tilkynnt var um athugunina, kom fram að vinna við kortlagningu stjórnunar- og eignatengsla í sjávarútvegi væri liður í heildarstefnumótun ráðuneytisins og í „samræmi við stjórnarsáttmála og áherslur Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra“ eins og það var orðað.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ríkir nokkur óvissa um það meðal forsvarsmanna sjávarútvegsfyrirtækja hvort svo ítarleg athugun eigi rétt á sér og hafa nokkur af fyrirtækjunum ráðfært sig við lögræðinga vegna málsins. Það sjónarmið byggist á því að SKE sé eftirlitsstofnun sem hafi víðtækar heimildir til að rannsaka meint brot og hefja frumathugun á málum en hér sé um óljóst samstarf framkvæmdavalds (ráðuneytis) og eftirlitsstofnunar að ræða þar sem tilgangurinn er óljós.
Enginn forsvarsmaður í sjávarútvegi var tilbúinn til að tjá sig undir nafni við Morgunblaðið af ótta við frekari aðgerðir af hálfu SKE.
SKE sendi forsvarsmönnum fyrirtækjanna erindi miðvikudaginn 5. apríl sl., daginn fyrir skírdag. Þar eru fyrirtækjunum gefnar tæpar þrjár vikur (að páskum meðtöldum) til að svara erindi eftirlitsstofnunarinnar.
Nánar var fjallað um málið í Morgunblaðinu um helgina.