Daníel færist á milli ráðuneyta

Daníel Svavarsson.
Daníel Svavarsson. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað Daníel Svavarsson skrifstofustjóra á skrifstofu samhæfingar og stefnumála í forsætisráðuneytinu. Daníel mun flytjast úr embætti skrifstofustjóra í menningar- og viðskiptaráðuneytinu á grundvelli heimildar í lögum um Stjórnarráð Íslands og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Daníel er með meistaragráðu í hagfræði og doktorsgráðu í viðskiptafræði frá Gautaborgarháskóla. Hann var skipaður skrifstofustjóri í menningar- og viðskiptaráðuneytinu í maí á síðasta ári en áður starfaði hann m.a. hjá Seðlabanka Íslands um fimm ára skeið og var aðalhagfræðingur Landsbankans í 12 ár.

Daníel tekur við embætti skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu 15. maí og tekur hann við af Hermanni Sæmundssyni sem nýverið var skipaður ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins.

Skrifstofa samhæfingar og stefnumála í forsætisráðuneytinu gegnir samhæfingarhlutverki í lykilverkefnum sem ganga þvert á ráðuneyti. Skrifstofan styður einnig við stefnumótun ríkisstjórnarinnar, ráðuneyta og stofnana, fylgir eftir stefnu ríkisstjórnarinnar, hefur yfirumsjón með sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, velsældaráherslum og þjónustar ráðherranefndir. Þá á skrifstofan í virkum samskiptum við aðila vinnumarkaðarins, Þjóðhagsráð, Seðlabankann og Hagstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK