Dr. Einar Stefánsson, prófessor emeritus í augnlækningum við Háskóla Íslands segir vísindastarf á heilbrigðissviði hafa drabbast niður hér á landi á síðustu árum. Allar mælingar staðfesti það.
Hann vonar þó að uppgangur fyrirtækja eins og Oculis, sem hann stofnaði ásamt dr. Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði árið 2003 geti orðið vísindamönnum hvatning til þess að efla starfið að nýju.
Oculis var nýverið skráð á markað í Bandaríkjunum og er nú markaðsvirði þess vel á fjórða tug milljarða króna. Dr. Einar er gestur Dagmála og ræðir tilurð fyrirtækisins og hvaða uppfinningar liggja að baki uppgangi þess.
„Vonandi virkar þetta sem hvatning. Hins vegar verður að segjast að það hafa verið mikil vonbrigði hvernig rannsóknir á heilbrigðissviði hafa þróast undanfarna áratugi á Íslandi því Landspítalinn hefur fallið mjög mikið sem vísindastofnun. Allar magntölur og gæðatölur segja okkur það með upplýsingum frá NordForsk sem segja okkur það. Þannig að það hefur komið bakslag í vísindastarfsemi á heilbrigðissviði, ekki síst á Landspítalanum. Ég held að það sé vilji núverandi stjórnenda til að snúa þessu við. Ég þykist sjá það og treysti því og ég vona að svona dæmi eins og þetta hjálpi til við að endurskapa kannski þá menningu sem var til staðar fyrir aldamótin. Við höfum tapað þessu dálítið niður og við þurfum að endurskapa þessa stemningu og þennan vilja og vonandi er það að gerast. Og ég vona að jákvæðar sögur eins og þessi hjálpi til við að breyta stefnunni,“ segir Einar.
Viðtalið við Einar má sjá og heyra hér: