Andri Þór Guðmundson forstjóri Ölgerðarinnar segist hafa fundið fyrir miklum áhuga frá fjárfestum á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos fyrr í vetur, á lífsstílsdrykknum Collab, sem kynntur var á viðburðinum. „Við fundum fyrir miklum áhuga frá fjárfestum sem vildu taka Collab yfir á næsta stig,“ segir Andri.
Ölgerðin seldi meira en átta milljónir dósa af Collab á síðasta ári. Í drykknum er kollagen úr fiskroði.
Andri segir að Ölgerðin líti á vatnsfyrirtækið Iceland Spring og Collab sem vörumerki sem hægt sé að selja út úr fyrirtækinu í framtíðinni. Öll uppbyggingin miði að því.
Spurður hvort hann hafi átt von á því að Collab myndi slá í gegn á markaðinum segist hann hafa haft væntingar. „Við höfðum væntingar, en bjuggumst ekki við þeim vinsældum sem urðu að veruleika. Við höfum ekki séð svona hraðan vöxt áður.“
Prófun á Collab hefur nú þegar farið fram erlendis að sögn Andra og segir hann drykkinn hafa mælst mjög vel fyrir. Stór markaðskönnun í Svíþjóð er á döfinni. „Áhuginn að utan er hreint út sagt ótrúlegur. Ég hef aldrei upplifað annað eins.“
Andri segir í ítarlegu samtali við ViðskiptaMoggann að markmiðið sé að 5% af veltu hvers árs komi frá nýjum vörum. „Við höfum verið langt yfir því marki út af velgengni Collab.“
Lesa má nánar um málið í ViðskiptaMogganum í dag.