Mörgum hagfræðingnum brá í brún þegar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun birti vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í gær, þriðjudag.
Vísitalan tók stökk upp á við sem ekki hefur sést frá því að íbúðamarkaðurinn snöggkólnaði upp úr miðju síðasta ári. Þannig hækkaði vísitalan um 1,5% á milli mánaða í mars en þar af nam hækkun fjölbýla 1%. Vísitalan hækkaði um 0,3% í febrúar en fram til þess hafði hún farið lækkandi milli mánaða, þrjá mánuði í röð.
Þrátt fyrir að greining Íslandsbanka hafi reiknað með hækkun vísitölunnar, þá kom hin mikla sveifla þeim töluvert á óvart. „Við bjuggumst við því að hækkun í mars yrði svipuð og í febrúar, hún gæti jafnvel farið í 0,4-0,5% þar sem við reiknuðum með því að það væri einhver gangur á markaðinum, en þessi mikla sveifla kom okkur á óvart,“ segir Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Íslandsbanka.
Lesa má nánar um málið í ViðskiptaMogganum í dag.