Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna hefur verið kosin í stjórn Alþjóða jarðhitasambandsins, IGA (International Geothermal Association). Hún mun sitja í stjórn félagsins næstu þrjú árin. Auk hennar var Dr. Bjarni Pálsson kjörinn í stjórn IGA.
Í tilkynningu frá Veitum kemur fram að IGA hafi það að markmiði að efla þekkingu á jarðhita og stuðla að hagkvæmri jarðhitanýtingu um allan heim. Sambandið styður meðal annars við rannsóknir og þróun á jarðhitanýtingu með því að efla samskipti og samvinnu sérfræðinga, vísindafólks, fyrirtækja, stofnana og stjórnvalda. Heimsþing IGA er stærsti alþjóðlegi viðburðurinn á sviði jarðhita í heiminum. Ráðstefnan var haldin í Reykjavík árið 2021 og verður næst haldin í Peking í Kína í september.
„Orku- og loftlagsmálin eru brýnustu áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir og það þarf að grípa til metnaðarfullra aðgerða til að takast á við þær. Til þess að hægt sé að knýja fram raunverulegar breytingar skiptir miklu máli að alþjóðleg samvinna sé góð og að við deilum reynslu okkar á milli. Það er því óneitanlega spennandi að verða hluti af stjórn Alþjóða jarðhitasambandsins og taka þátt í metnaðarfullu starfi þeirra af fullum krafti,“ er haft eftir Sólrúnu í tilkynningunni.