Nýir fjárfestar og Baldur tekur við stjórnarformennsku

Bjarni K. Þorvarðarson framkvæmdastjóri BKP Invest, Baldur Stefánsson, Sveinn Heiðar …
Bjarni K. Þorvarðarson framkvæmdastjóri BKP Invest, Baldur Stefánsson, Sveinn Heiðar Guðjónsson og Bjarki Logason hjá Hömrum Capital Partners. Ljósmynd/Aðsend

Hamrar Capital Partners og BKP Invest hafa bæst við fjárfestahóp gervigreindarfyrirtækisins OZ. Félagið og lykilhluthafar þess hafa einnig gert samning við Hamra um að veita ýmsa þjónustu sem miðar að því að auka virði OZ á næstu árum. Baldur Stefánsson, einn meðeiganda Hamra, tekur við stjórnarformennsku í OZ.

Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Gervigreindartækni sem byggir á tölvusjón

OZ sérhæfir sig í gervigreindartækni byggðri á tölvusjón og hefur tæknin verið í þróun síðustu fjögur árin en fyrsta lausn fyrirtækisins er nú tilbúin til innleiðingar. Lausnin nefnist OZ Smart Stadium og nýtir fullkominn myndavéla- og gervigreindarbúnað sem settur er upp varanlega á knattspyrnuvöllum til að senda út knattspyrnuleiki í hámarksgæðum. Þessi nýja tækni býður upp á sambærileg gæði útsendinga og hjá stærri úrvalsdeildum en fyrir brot af núverandi kostnaði við slíkar útsendingar. 

OZ hefur nýlega gengið frá samningum um að senda út leiki í samstarfi við Íslenskan Toppfótbolta og verður búnaðurinn settur upp á 13 keppnisvöllum fyrir komandi sumar 2023, segir enn fremur í tilkynningu. 

Leikbreytir og spennandi möguleikar

„BKP Invest hefur áratuga reynslu af fjárfestingum í fjarskipta- og fjölmiðlainnviðum og við trúum því að sá sparnaður í fjárfestingum og rekstrarkostnaði tengdum útsendingum sem OZ Smart Stadium kerfið býður upp á muni verða leikbreytir í þessum geira. Þá sjáum við einnig fjölmörg tækifæri í að nýta í rauntíma þau gögn sem kerfið safnar og fylgist með,“ er haft eftir Bjarna K. Þorvarðarsyni, framkvæmdastjóri BKP Invest.

„Við hjá Hömrum erum afar spennt yfir þeim möguleikum sem tæknilausn OZ býður upp á.  Ekki eingöngu sparar kerfið verulega núverandi kostnað vegna útsendinga heldur opnar kostnaðarlækkunin á möguleika á að senda út, af fullum metnaði, viðburði sem áður voru sendir út í takmörkuðum gæðum eða jafnvel alls ekki, svo sem leikir smærri deilda og yngri iðkenda. Þá bindum við einnig vonir við að tæknin geti lyft grettistaki í að auka veg kvennaknattspyrnu á alþjóðavettvangi með því að styrkja tekjusköpunarmöguleika kvennadeilda,“ er haft eftir Baldri Stefánssyni, meðeiganda Hamra Capital Partners.

Kerfið verið í þróun frá 2018

Þá segir, að OZ Smart Stadium kerfið hafi verið í þróun frá árinu 2018 og hafa yfir 300 leikir þegar verið sendir út erlendis í samstarfi við FIFA. Kerfið sé ávallt reiðubúið til útsendinga og nýtir sex 4K UHD myndavélar með öflugum aðdráttarlinsum, nákvæmum stöðugleikabúnaði, sjálfvirku stýrikerfi fyrir myndavélar, stefnuvirkum hljóðnemum og gervigreindarútsendingarbúnaði. Þá fylgi kerfinu fullkominn hugbúnaður fyrir myndvinnslu og grafík og hægt er að senda út hágæða myndstraum fyrir alla helstu miðla, svo sem fyrir sjónvarp, farsíma og vefmiðla.

„Gervigreindartækni OZ hefur á síðastliðnum fjórum árum „lært“ hvernig myndavélar fylgja atburðarás knattspyrnuleikja og hvernig skipt er á milli myndavéla í útsendingum. Með því að fækka þeim tækni- og kvikmyndatökuaðilum sem í dag koma að sambærilegum útsendingum niður í einn útsendingastjóra, sem ekki þarf að vera staðsettur á leikvanginum, getur OZ boðið rétthöfum eins og sjónvarpsstöðvum, deildum, knattspyrnusamböndum og félagsliðum, möguleika á að senda út fleiri leiki og í hámarksmyndgæðum, fyrir brot af núverandi kostnaði,“ segir í tilkynningunni.

„Við erum afar ánægð að fá Hamra og BKP Invest inn í fjárfestahóp OZ,“ er haft eftir Guðjóni Má Guðjónssyni, framkvæmdastjóra OZ. „Þeir eru báðir að okkar mati sú tegund virðisaukandi fjárfesta sem við höfum verið að sækjast eftir og munu hjálpa okkur að koma OZ Smart Stadium kerfinu á framfæri á alþjóðamarkaði.“

---

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK