Bankaáhlaupið á Credit Suisse varð til þess að 61 milljarður franka, eða rúmlega níu billjónir íslenskra króna (9.000 milljarðar kr.), var tekinn út úr bankanum á fyrstu þremur mánuðum ársins, áður en svissneska ríkið kom bankanum til bjargar í mars.
Í mars var greint frá því að svissneski bankinn UBS hafi samþykkt að kaupa Credit Suisse. BBC greinir frá því að gert sé ráð fyrir að kaupin munu ganga í gegn bráðum.
Í yfirlýsingu Credit Suisse sagði að eignir bankans hafi dregist saman um 29% á milli ára.
Þá greindi bankinn frá því að viðskiptavinir Credit Suisse hafi tekið út peninga sína um leið og fregnir bárust af gjaldþroti bandarísku bankanna Silicon Valley Bank og Signature Bank í mars.
Í kjölfarið hljóp svissneski seðlabankinn undir bagga með Credit Suisse og lánaði bankanum meira en 200 milljarða franka.