Gerðardómur Viðskiptaráðs Íslands (GVÍ) og Justikal ehf. hafa gert með sér samkomulag um innleiðingu á stafrænu réttarkerfi Justikal fyrir öll mál gerðardómsins.
Að sögn Öglu Eirar Vilhjálmsdóttur, lögfræðings Viðskiptaráðs og framkvæmdastjóra GVÍ, ríkir tilhlökkun fyrir samstarfinu.
„Við erum gríðarlega spennt fyrir samstarfinu við Justikal en með tilkomu stafræna réttarkerfisins getum við veitt skjólstæðingum okkar framúrskarandi þjónustu í takt við kröfur nútímans en kerfið gerir okkur m.a. kleift að taka við, geyma og sannreyna öll stafræn gögn.“
Margrét Anna Einarsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Justikal, tekur í sama streng.
„Við erum mjög stolt að fá Gerðardómstól Viðskiptaráðs Íslands til liðs við okkur en Justikal er nú þegar komið í notkun hjá öllum héraðsdómstólum landsins. Okkar markmið ríma vel við markmið Gerðardómsins, þá sér í lagi um að veita framúrskarandi þjónustu í takt við kröfur nútímans þar sem ýtrasta öryggis er gætt.“
Með því að nýta þjónustu Gerðardóms Viðskiptaráðs geta aðilar fengið leyst úr ágreiningsmálum með skjótum hætti en reglur dómsins kveða á um endanlega úrlausn innan sex mánaða, nema aðilar semji um annað. Trúnaður gildir um málsmeðferðina og eru úrskurðir dómsins því ekki birtir opinberlega.