Landsbankinn spáir 3,2 prósenta hagvexti á þessu ári, samkvæmt nýútgefinni þjóðhags- og verðbólguspá. Hagvaxtarspá bankans hefur hækkað frá því í okktóber í fyrra, en þá spáði bankinn 2,1 prósenta hagvexti fyrir árið í ár.
Hagfræðideild bankans spáir því að hægja muni á hagkerfinu þrátt fyrir áframhaldandi hagvöxt.
Samkvæmt spánni munu hækkandi vextir eiga stóran hlut í að hægja á hagkerfinu, eftir þann hraða viðsnúning sem varð að loknum faraldrinum, en vextir voru óvenjulágir í faraldrinum, sparnaður safnaðist upp og eftirspurnin fór hratt af stað þegar takmörkunum var aflétt
Kröftugum hagvexti er spáð í ár, en hann verður samt sem áður töluvert minni en í fyrra samkvæmt spá bankans. Spáin er bjartsýn vegna velgengni ferðaþjónustu, en efnahagsþrengingar ytra virðast ekki hafa dregið úr ferðavilja fólks og innlend eftirspurn mælist einnig meiri en gert var ráð fyrir.
Þrálát verðbólga, langt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, og hækkandi vaxtastig setja þó svip sinn á efnahagsumhverfið og gerir bankinn ráð fyrir að vextir haldi áfram að hækka, til að ná niður verðbólgunni.