Atvinnuleysi lækkaði niður í 3,1% í mars og dróst saman um 1,9 prósentustig frá febrúarmánuði samkvæmt árstíðaleiðréttum niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands.
Þá hefur árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka aukist um 0,6 prósentustig á milli mánaða og hlutfall starfandi aukist um 2 prósentustig en atvinnuþátttaka var 80,1% og árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi var 77,6%.
Í samantekt hagfræðideildar Landsbankans um horfur á Íslandi sem birt var fyrr í mánuðinum kemur fram að atvinnuleysi hafi dregist lítillega saman sökum eftirspurnar í ferðaþjónustu. Þar var sagt að búast megi við óvissu á vinnumarkaði í haust ásamt spennustigi sem gæti haft áhrif á kjaraviðræður.