Um 44 prósent stjórnarmanna eiga hlut, annaðhvort beinan eða óbeinan, í þeim félögum sem þeir sitja í eða 47 stjórnarmenn af 107. Mikill meirihluti stjórnarformanna á hluti í þeim félögum sem þeir sitja í eða 15 af 20 stjórnarformönnum.
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að hann telji að blönduð stjórn af þeim sem eigi í félögum og þeim sem eigi ekki sé best.
„Ég sé bæði kosti og galla á þessu. Kostirnir eru klárlega þeir að stjórnarmenn hafi hvata til að vinna í þágu félagsins ef þeir eigi eitthvað undir. Á móti kemur að talað er um óhæði stjórnarmanna í stjórnarháttaleiðbeiningunum og mælst til þess að meirihluti stjórnar sé óháður,“ segir Magnús og bætir við að sé stjórnarmaður tengdur félagi þannig að það leiki enginn vafi á að hans eiginhagsmunir geti haft áhrif á ákvarðanatöku gagnvart félaginu geti það rýrt getu stjórnarmannsins til að sinna eftirlitshlutverki.
„Út frá þessum línum þá álít ég blöndu af þessu tvennu góðan kost,“ segir Magnús.
Hluthafar skráðra félaga horfa í auknum mæli til reynslu og þekkingar þegar kemur að því að velja stjórnarmenn í félög sín. Þannig má til að mynda í mörgum tilvikum sjá fyrrverandi forstjóra stórra fyrirtækja í sætum stjórnarformanna.
Lestu ítarlega úttekt í ViðskiptaMogganum í dag.