Alþjóðlega sendifyrirtækið Wolt ætlar að bjóða þjónustu sína íslenskum viðskiptavinum frá og með vormánuðum. Fyrirtækið er um þessar mundir í óðaönn að semja við sendla, sem koma vörum og veitingum til viðskiptavina. Wolt álitur sig vera leiðandi í nýrri kynslóð verslunar sem kallast á frummálinu „Quick-Commerce,“ eða „snöggverslun“, sem er næsta skref í þróun vefverslunar. Í þessu felst að sendlar Wolt sækja vöruna úr næstu verslun og koma henni heim til viðskiptavinarins, stystu mögulegu leið.
„Flestum kemur á óvart fjölbreytni þess úrvals sem við bjóðum. Við sendum allt frá venjulegum mat frá veitingastað, en einnig matvörur, og í raun allt sem þú getur hugsað þér að fáist í smásöluverslun,“ segir Elisabeth Stenersen, framkvæmdastjóri Wolt í Noregi og á Íslandi, í samtali við ViðskiptaMoggann. Hún bendir jafnframt á að í Noregi séu unaðsvörur með vinsælli vöruflokkum, enda hentugt að fá þær vörur heimsendar, og þær berast hratt heim þegar kallið kemur.
Lestu ítarlegri umfjöllun í ViðskiptaMogganum í dag.