Þórður Magnússon sem hefur leitt Eyri Invest síðastliðin 23 ár hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn á aðalfundi þann 10. maí næstkomandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Þórður er stærsti einstaki hluthafinn í félaginu og mun áfram sitja í stjórnum ýmissa fyrirtækja auk þess sem hann mun styðja við sprotaumhverfið. Þórður ákvað einnig að gefa ekki kost á sér áfram sem stjórnarformaður Eyris Venture Management og sjóða í stýringu þess.
Stjórn Eyris Invest gerir tillögu um að aðalfundur kjósi Friðrik Jóhannsson og Elínu Sigfúsdóttur ný inn í stjórnina. Jafnframt leggur stjórnin til að Hrund Gunnsteinsdóttir, Ólafur Steinn Guðmundsson og Stefán Árni Auðólfsson verði endurkjörin í stjórnina. Signý Sif Sigurðardóttir hefur tekið við sem framkvæmdastjóri Eyris Invest og Herdís Dröfn Fjeldsted tók á dögunum við sem stjórnarformaður Eyris Venture Management sem stýrir sprota- og vaxtarsjóðum Eyris Invest.
Haft er eftir Þórði Magnússyni í tilkynningu að tími sé kominn á breytingar eftir að hafa leitt félagið í 23 ár.
„Eftir að hafa stofnað Eyri Invest með Árna Oddi og leitt félagið í 23 ævintýraleg ár tel ég að nú sé kominn tími á breytingar sem felast í því að ég víki fyrir framúrskarandi fólki sem hefur áhuga á að leiða félagið til framtíðar. Á undanförnum árum hef ég fyrst og fremst litið svo á að ég sé í hlutverki mentors til að styðja við afburðahæft fólk hjá Eyri og félögunum en nú blasir við að þau eru fullfær um að taka við keflinu og axla enn meiri ábyrgð. Ég mun þó áfram sinna spennandi stjórnarverkefnum og vonandi geta stutt áfram við sprota og fólk framtíðarinnar. Svo er það auðvitað svo að lífið hefur upp á svo margt að bjóða og okkur hjónin langar að sinna öðrum áhugamálum á meðan við búum svo vel að vera við góða heilsu og hafa tækifæri til. Því hlakka ég til að njóta framtíðarinnar og fylgjast sem hluthafi með vexti Eyris, Marel og félaganna sem við erum svo stolt af að hafa komið að,“ segir Þórður Magnússon, fráfarandi stjórnarformaður Eyris Invest.
Eyrir Invest hf. er fjárfestingafélag í eigu fagfjárfesta og fjársterkra einstaklinga. Eyrir er stærsti hluthafinn í Marel og hefur leitt félagið til vaxtar á síðustu tuttugu árum. Eyrir var jafnframt stærsti innlendi hluthafinn í Össuri frá 2004 til 2011. Á umræddum tíma hafa umsvif þessara fyrirtækja vaxið gríðarlega, rekstrargrundvöllur þeirra styrkst, tekjustoðum fjölgað og rannsóknar- og þróunarstarf eflst.