Forsætisráðherra hefur á grundvelli niðurstöðu lögbundinnar hæfnisnefndar og að fenginni tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra skipað Björk Sigurgísladóttur framkvæmdastjóra í embætti varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits til fimm ára frá og með 1. maí.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að embættið hafi verið auglýst laust til umsóknar 7. febrúar og hafi sex umsóknir borist. Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka.
Björk hefur sl. 15 ár starfað við fjármálaeftirlit, fyrst hjá Fjármálaeftirlitinu en síðan hjá Seðlabanka Íslands.
Hún lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 2000. Hún er með meistaragráðu í alþjóðalögum og samanburðarlögfræði (LLM) frá University of Iowa frá árinu 2004 og meistaragráðu í viðskiptafræði (MBA) frá University of Northern Iowa frá árinu 2008.