Pósturinn er fyrsta fyrirtækið á Íslandi til þess að nota rafmagnsflutningabíla en stofnunin hefur fest kaup á tveimur Volvo FL Electric rafmagnsflutningabílum sem verða aðallega nýttir til dreifingar á sendingum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Póstinum.
Bílarnir eru rúmlega 16 tonn og geta borið allt að 6,8 tonn. Þeir eru með allt að 200 km akstursdrægni og með hraðhleðslu í 45 mínútur er hægt að ná yfir 110 km til viðbótar. Dagleg drægni getur því verið ríflega 300 km. Það tekur um 7,4 klst. að hlaða og því dugir nóttin til þess að fullhlaða vörubílinn fyrir næsta vinnudag,
„Það er stórt framfaraskref fyrir Póstinn að nýta flutningabíla með þennan orkugjafa, þetta er framtíðin,“ er haft eftir Guðmundi Karli Guðjónssyni í tilkynningunni en hann er forstöðumaður útkeyrslu og dreifingar hjá Póstinum. Hann segir að stofnunin hafi fengið aðstoð frá sérfræðingum Veltis til að reikna nákvæmlega hvernig rafmagnsvörubíll hentaði.
Guðmundur segist vera bjartsýnn Pósturinn verði kominn með flotann nær einvörðungu í rafmagn og metan á þessum tíma og jafnvel vetni fyrir árið 2030. „Pósturinn er fyrsta fyrirtækið á landinu til að nota rafmagnsflutningabíla. Það lofar góðu“ segir hann að lokum.