Ísland er í fararbroddi Evrópu fjórða árið í röð þegar kemur að fjölda virkra ljósleiðaratenginga. Alls eru 76,8 prósent heimila á Íslandi tengd, þar á eftir kemur Spánn með 73,6 prósent og Portúgal með 71,1. Frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum Svíar og Norðmenn hafa 67,5 prósent heimila ljósleiðartengd, Danir 43 prósent og Finnar með 42,7 prósent.
Þetta kemur fram í grein Erik Figueras Torras, forstjóra Mílu, sem birtist í Morgunblaðinu í gær, fimmtudag. Erik vísar í yfirlit FTTH Council Europe, sem er samstarfsvettvangur fyrirtækja sem hafa að meginmarkmiði stuðning við þróun og uppbyggingu aðgangsneta um ljósleiðara í Evrópu.
Hann segir stóru Evrópuríkin eiga töluvert í land við að tengja heimili og fyrirtæki við ljósleiðara. Frakkland standi sig vel og þar séu yfir 55 prósent heimila með virka tengingu við ljósleiðara. Aftur á móti séu Ítalía, Bretland og Þýskaland mjög aftarlega í þessum málum. Á Ítalíu eru aðeins 12,5 prósent heimila tengd ljósleiðara, í Bretlandi eru það 11 prósent og í Þýskalandi er hlutfallið enn lægra, eða 7 prósent.
„Þessi samanburður við Evrópu sýnir hversu framarlega við erum hvað viðkemur aðgengi heimila og fyrirtækja að háhraðatengingum. Hann undirstrikar hversu vel okkur hefur gengið að ljósleiðaravæða heimilin í strjálbýlu landi,“ segir Erik í greininni.
Hann segir árangur Íslands þó ekki sjálfsagðan heldur byggist hann á öflugu framtaki fyrirtækja, sterkri stjórnsýslu fjarskipta- og samkeppniseftirlits og framsýni stjórnmálaleiðtoga á mikilvægi tenginga um land allt.
„Miklu skiptir fyrir lífskjör á Íslandi og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs að viðhalda þessu forskoti fjarskiptainnviða. En þótt vel gangi og við séum fremst þjóða er enn nokkuð í land að allt landið sé ljósleiðaratengt. Þar getum við gert betur og tengt dreifðari byggðir við framtíðarsamskipti,“ segir hann.
Þá segir hann Mílu vinna hörðum höndum að því að ljósleiðaravæða heimili landsins og að félagið muni fjárfesta meira á þessu ári í ljósleiðaravæðingu heimila og fyrirtækja en nokkru sinni. Félagi hefur áður tilkynnt að til standi að fjárfesta í í uppbyggingu fjarskiptainnviða fyrir allt að 30 milljarða króna á næstu fimm árum.