Úrvalsvísitalan í Kauphöllinni lækkaði um 7,5% í viðskiptum dagsins, en þar munaði mestu um 17,56% lækkun á bréfum Marels í 2,2 milljarða króna viðskiptum. Kemur lækkunin í kjölfar uppgjörs félagsins sem kynnt var eftir lokun markaða í gær. Lækkunin olli því að markaðsverð Marels lækkaði um samtals 81 milljarð í dag.
Bréf Festis lækkuðu næst mest, eða um 6,81%, en félagið kynnti uppgjör sitt einnig í gær. Var tap á rekstrinum upp á 90 milljónir á síðasta ársfjórðungi.
Verð allra félaga lækkaði í viðskiptum dagsins, ef frá er talið verð bréfa Brims, en þau stóðu í stað.