Hópur frumkvöðla í Verslunarskóla Íslands hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu og fengið verðlaun og viðurkenningar innan lands sem utan fyrir borðspilið Aur & áhættu, sem er gert til að auka fjármálalæsi. „Hugmynd að spilinu fæddist í frumkvöðlaáfanga í janúar og stefnan er að koma því í sem flesta grunnskóla landsins,“ segir Salka Sigmarsdóttir, talsmaður hópsins.
Auk Sölku eru í hópnum Kolbrún Jónsdóttir, Sonja Oliversdóttir, Þórunn Jenný Guðmundsdóttir, Kristinn Örn Gunnarsson og Hrafnhildur Gerða Guðmundsdóttir, en þau útskrifast öll í vor. Salka segir að þegar þau hafi rætt um kennslu í fjármálalæsi hafi þau átt það sameiginlegt að hafa enga slíka kennslu fengið í grunnskóla en verið þakklát fyrir hvað þau hafi fengið góða fjármálakennslu á viðskiptabraut VÍ.
„Okkur fannst undarlegt að ekkert okkar hefði fengið grunn í fjármálakennslu á yngri stigum, ekki síst vegna þess að fjármálalæsi snertir alla í daglegu lífi. Þannig varð borðspilið til en það veitir þátttakendum innsýn í hlutabréfamarkaðinn og kennir þeim að beita grunnhugtökum í fjármálum.“
Nemendurnir hönnuðu spilið með ungmenni á efri stigum grunnskóla í huga en leggja áherslu á að allir geti haft gaman af því. Fræðslan skipti miklu máli og hún sé sett upp á skemmtilegan hátt til að kveikja áhuga á fjármálum.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.