Rafíþróttaliðið Heroic fór í gegnum hlutafjárútboð fyrr á árinu til þess að reyna halda starfseminni gangandi. Það tókst að vissu leyti en ekki var ljóst hversu lengi þessi innspýting af peningum myndi endast og framtíðin því óljós.
Fyrirtækið Omaken, sem eru eigendur Heroic, náði að safna tæplega milljón bandaríkjadollara sem samsvarar 136 milljónum íslenskra króna og átti það að duga þangað til í haust. Nú á dögunum birti Omaken ársyfirlit 2022 og kom þar ýmislegt í ljós.
Samkvæmt ársreikningnum tapaði Omaken 14,3 milljónum dollara árið 2022 eða tæpum tveimur milljörðum króna, ofan á það tapaði Heroic um 6 milljónum dollara eða um 820 milljónum króna. Samanlagt tap þessara tveggja félaga var þá yfir 2,7 milljarðar.
Næstum 2 milljón dollarar voru skrifaðir á launakostnað í skýrslunni en Heroic heldur úti þremur keppnisliðum. Liðin keppa í Counter-Strike, Rainbow 6 Siege og PlayerUnknown: Battlegrounds. Einnig hélt liðið úti keppnisliði í Rocket League árið 2022.
Hinsvegar gæti verið að þetta mikla tap sé til komið vegna þess að Heroic ásamt tveimur öðrum liðum gengu í samkomulag um áframhaldandi keppni í Coutner-Strike og keyptu út annað lið úr BLAST mótaröðinni.
Samkvæmt þessari skýrslu er ljóst að Heroic þarf að treysta á annað hlutafjárútboð til þess að halda starfseminni gangandi yfir á næsta tímabil en mikil spenna er fyrir því enda verður skipt yfir í nýja leikinn, Counter-Strike 2.