IKEA stækkar um 12 þúsund fermetra

Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA. IKEA stækkar húsnæði verslunarinnar í …
Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA. IKEA stækkar húsnæði verslunarinnar í Kauptúni 4 um 12 þúsund fermetra. mbl.is/Arnþór

„Nú erum við bara að koma öllu á einn stað. Við þurfum þá hvorki að senda vörur á milli lagerrýma né viðskiptavinurinn að sækja vörur á annan stað utan húsnæðis verslunarinnar,“ segir Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, en nú standa yfir heilmiklar framkvæmdir á lóð IKEA í Kauptúni í Garðabæ.

Húsnæði IKEA að Kauptúni 4 stækkar um rúma 12 þúsund fermetra að flatarmáli en það er um 22 þúsund fermetrar í dag. Vörulager verslunarinnar er á þremur stöðum; í Suðurhrauni 10, Kauptúni 3 og í húsnæði IKEA að Kauptúni 4.

Verklok eru áætluð haustið 2024.
Verklok eru áætluð haustið 2024. Tölvuteikning/IKEA

Allt samkvæmt áætlun

Nýtt lagerrými mun rísa sem leysir af hólmi þau tvö sem verslunin rekur utan sinnar lóðar. Stefán segir að nýja rýmið verði jafnstórt að flatarmáli og þau tvö lagerrými sem leggjast af en það verði hærra til lofts í því nýja. Þá mun bæði ný vörumóttaka líta dagsins ljós og ný vöruafgreiðsla sem og bætt aðstaða fyrir starfsfólk. Hann segir allt vera samkvæmt áætlun.

Stefán Rúnar tók við framkvæmdastjórastöðunni af Þórarni Ævarssyni árið 2019. Áður var hann verslunarstjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri í 12 ár. Hann hefur þó starfað fyrir IKEA í um 30 ár og fyrir eigendur IKEA enn lengur.

„Ég byrjaði sem kerrustrákur í Hagkaup þegar ég var 13 ára en eigendur IKEA áttu Hagkaup á þeim tíma. Ég hóf störf hjá IKEA með skóla þegar ég var 18 ára og svo í fullu starfi í kjölfarið. Fljótlega eftir að ég tók við sem framkvæmdastjóri fórum við að huga að stækkun húsnæðisins,“ segir Stefán.

„Við byrjuðum í október á síðasta ári og erum að verða búin með fyrsta hlutann sem er jarðverkið og tæknibygging. Tæknibyggingin er sér bygging fyrir inntökin, bæði vatn og rafmagn. Þar verður einnig vararafstöð, geymslur og fleira.“

Tæknibyggingin sem nú er risin hýsir inntökin, bæði vatn og …
Tæknibyggingin sem nú er risin hýsir inntökin, bæði vatn og rafmagn. Þar verður einnig vararafstöð, geymslur og fleira. mbl.is/Arnþór

Innanhúsbreytingar í reglulegri skoðun

Stefán segir búið að steypa upp það sem þarf að steypa í sökkla og næsta skref sé að reisa stálið í sjálfan vörulagerinn en sá hluti framkvæmdarinnar hefjist eftir um það bil mánuð. Hann segir að ekki hafi verið skoðað að stækka verslunarrýmið sjálft en segir þó að innanhússbreytingar séu í reglulegri skoðun. „Aðallega er þetta vörumóttaka og lager en síðan verða þarna heimsendingar og sendingar út á land sem og „smelltu og sæktu“ þjónustan okkar.

IKEA opnaði „smelltu og sæktu“ þjónustuna nokkrum dögum fyrir fyrstu lokun í Covid og segir Stefán að það hafi gengið vel allt frá fyrsta degi. „Það var eðlilega meira álag í Covid þar sem eini möguleikinn til að nálgast vörurnar okkar á staðnum með einföldum hætti var oft á tíðum þessi. Það hefur verið mjög jafnt hlutfall sendinga eftir Covid en þó eru einhverjum mánuðir stærri en aðrir, segir hann og bætir við að þróunin sé jákvæð.

Húsið sem er að rísa verður tvær hæðir. Á neðri …
Húsið sem er að rísa verður tvær hæðir. Á neðri hæðinni verður ný vörumóttaka. Nýr 8 þúsund fermetra vörulager mun þá rísa undir rauða krananum á myndinni. Gamla vörumóttakan, vinstra megin á myndinni leggst af og húsið verður lengt um það bil út steypta planið. Þar mun verða sett upp heilmikil ruslflokkunarstöð. mbl.is/Arnþór
Ný vöruafgreiðslu lítur dagsins ljós. Viðskiptavinir IKEA munu ekki lengur …
Ný vöruafgreiðslu lítur dagsins ljós. Viðskiptavinir IKEA munu ekki lengur þurfa að sækja vörurnar á annan stað utan húsnæðis verslunarinnar. Tölvuteikning/IKEA

Ný starfsmannaaðstaða og skrifstofur

Hjá IKEA á Íslandi starfa um 470 starfmenn í 365 stöðugildum. Stefán segir að ný starfsmannaaðstaða muni líta dagsins ljós, sem og ný skrifstofa og ýmis bakrými. „Tengibyggingin sem hýsir skrifstofur í dag verður rifin að hluta og byggð ný aðstaða inn í hana og þar á meðal stækka starfsmannaklefar og starfsmannaaðstaða aðeins.“

Rekstur IKEA á Íslandi hefur gengið vel og segir Stefán afkomuna hafa verið góða síðastliðin ár. Hagnaður Miklatorgs, rekstraraðila IKEA á Íslandi, hefur aukist jafnt og þétt. Fyrirtækið hagnaðist um 210 milljónir króna á því rekstrarári sem lauk árið 2019, um 500 milljónir króna árið 2020 og um 820 milljónir króna árið 2021 og um 980 milljónir króna á síðasta rekstrarári.

Ný vörumóttaka og ný starfsmannaaðstaða mun rísa. Glerbyggingin sem skagar …
Ný vörumóttaka og ný starfsmannaaðstaða mun rísa. Glerbyggingin sem skagar út yfir vörumóttökuna mun hýsa skrifstofur með útsýni yfir Reykjanesbraut til norðurs. Tölvuteikning/IKEA

Áætluð verklok haustið 2024

Ljóst er að um jákvæðar breytingar er að ræða fyrir bæði starfsfólk og viðskiptavini IKEA á Íslandi. Framkvæmdastjórinn er spurður hvenær allt eigi að verða klárt.

„Áætluð verklok eru haustið 2024 og allt er á áætlun en ég vil ekki gefa nákvæma dagsetningu,“ segir Stefán Rúnar og glottir.

Húsnæði IKEA séð frá Reykjanesbraut til austurs.
Húsnæði IKEA séð frá Reykjanesbraut til austurs. Tölvuteikning/IKEA
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka