Alltaf hægt að gera betur

Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loflags og grænna lausna hjá Landsvirkjun.
Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loflags og grænna lausna hjá Landsvirkjun. Ljósmynd/Landsvirkjun

Landsvirkjun hefur frá lokum síðasta árs talist leiðandi fyrirtæki í loftslagsmálum á heimsvísu. 

Titilinn veita alþjóðlegu samtökin CDP, Carbon Disclosure Project, en þau eru óhagnaðardrifin samtök sem reka stærsta upplýsingabanka um umhverfismál á heimsvísu. Landsvirkjun fékk fyrst mat CDP árið 2016, en síðan þá hafa kröfur samtakanna aukist jafnt og þétt.

Við lok hvers mats veita samtökin einkunn, Landsvirkjun hafði í tvö ár verið með einkunnina A- en undir lok síðasta árs hlaut hún þó hæstu einkunn, eða einkunnina A og þar með titilinn, leiðandi fyrirtæki í loftslagsmálum, en einungis 1,5% fyrirtækja komast á þennan lista. 

Í dag fer fram ráðstefna í Hörpu sem Landsvirkjun heldur í samvinnu við CDP. Tilgangur ráðstefnunnar er að ræða gildi upplýsingagjafar til CDP á Íslandi, sem hvata til sjálfbærrar þróunar. Í undanfara loftslagsráðstefnunnar í Dubai (COP28) er afar mikilvægt að opinberar stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki birti sjálfbærniupplýsingar, m.a. til að sýna hversu langt þau hafa náð og þar með stuðla að enn meiri metnaði á heimsvísu.  

Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftslags og grænna lausna hjá Landsvirkjun, er ein þeirra sem kemur til með að taka þátt í pallborðsumræðum á fundinum. Hún segir samvinnu við CPD eiga stóran þátt í þeim árangri sem fyrirtækið hefur náð í umhverfismálum á síðustu árum. Með ráðstefnunni langi Landsvirkjun til þess að miðla til annarra, til að aðrir geti lært af þeirri vegferð sem þau eru á og eins langar þau að ná betur til ríkisrekinna fyrirtækja. 

Jóhanna segir aðhaldið frá CDP vera mikið og gott. Þegar einkunn er skilað er hún brotin upp í 12 þætti, sem auðveldar fyrirtækjum að sjá hvar þau geta og þurfa að gera betur. Þá er einnig hægt að skoða upplýsingabanka samtakanna um umhverfismál á heimsvísu og sjá þar hvað aðrir hafa verið að takast á við og læra af því. Hún hvetur því önnur fyrirtæki til þess að skila inn upplýsingum og skoða upplýsingabankann. 

Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með ráðstefnunni, sem hefst kl. 13:00, er bent á facebook-viðburð ráðstefnunnar hér.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK