Írska flugfélagið Ryanair hefur pantað 300 farþegaþotur af gerðinni Boeing 737 MAX fyrir um 40 milljarða dollara, sem nemur um 5.400 milljörðum kr.
Samningur Ryanair og bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing er einn sá stærsti í sögu félagsins og er til marks um uppsveiflu í rekstri flugfélaga og ferðaþjónustufyrirtækja.
Samkvæmt samkomulaginu hefur Ryanair samþykkt að kaupa 150 vélar auk þess sem það hefur möguleika á að fá 150 MAX-vélar í viðbót en þær vélar þykja mjög sparneytnar.
Ryanair segir að þetta sé stærsta pöntun á bandarískum framleiðsluvörum sem írskt fyrirtæki hefur nokkru sinni lagt fram.
Stefnt er á að afhenda vélarnar á árabilinu 2027 til 2033. Fram kemur í umfjöllun AFP að venjulega semji flugfélög um afslátt af listaverði, ekki síst þegar um svo stórar pantanir er að ræða.
Ryanair tekur þó fram að svo gæti farið að samningurinn verði borinn undir hluthafa félagsins á árlegum aðalfundi sem fer fram í september. Það yrði þá gert í ljósi umfangs og stærðar samkomulagsins.
Samningurinn þykir sérstaklega góð tíðindi fyrir Boeing sem hefur átt undir högg að sækja í kjölfar kórónuveirufaraldursins og eftir að 737 MAX-vélarnar voru kyrrsettar í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa.