Útgerðarfyrirtækið Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði, G.Run, hefur sent umboðsmanni Alþingis og Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra (og ráðherra samkeppnismála), erindi vegna úttektar Samkeppniseftirlitsins (SKE) sem nú fer fram.
SKE framkvæmir nú sérstaka úttekt á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Úttektin er gerð að beiðni Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra en eins og Morgunblaðið hefur greint frá fær SKE greiddar 35 milljónir króna frá matvælaráðuneytinu vegna hennar.
G.Run gerir athugasemdir við málsmeðferð SKE og telur að ráðherra geti ekki falið öðrum stjórnvöldum að annast sérstök verkefni með þessum hætti. Þá eru gerðar fleiri athugasemdir við úttektina.
„Afstaða ráðherrans liggur fyrir þannig að það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að hún skuli fara út í þessa vegferð. Það sem þó vekur spurningar, ekki bara hjá mér heldur einnig þeim sem velta fyrir sér stjórnsýslu, er að það sé hægt að nýta eftirlitsstofnun með þessum hætti og siga henni á ákveðna atvinnugrein,“ segir Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri G.Run, í samtali við Morgunblaðið þar sem hann gagnrýnir vinnubrögðin í kringum úttektina. Þá efast hann um lögmæti hennar. Aðspurður segist hann þó ekki óttast hefndir SKE vegna erindanna.
Hægt er að lesa nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.